by ibuahreyfingin | 25 Feb, 2011 | Greinar
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir Mosfellsbæ, lagði Íbúahreyfingin m.a. til að bæjarfélagið færi kerfisbundið í að skipta tölvukerfum sínum yfir í opinn hugbúnað, en með því má spara ótaldar milljónir árlega.
Sparnaðurinn nær ekki bara til bæjarfélagsins, heldur sparar þessi aðgerð gjaldeyri og fjárfestingar hjá íbúum Mosfellsbæjar með börn á skólaaldri. Opinn hugbúnaður er einnig atvinnuskapandi innanlands.
Ekki er minnst á þetta í fjárhagsáætlun bæjarins, haldið er áfram að fjárfesta í dýrum hugbúnaði í stað þess að nota sambærilegann búnað sem kostar ekkert og er öllum aðgengilegur.
Íbúahreyfingin hefur ítrekað bent á þessa sparnaðarleið, fyrir nokkru var reynt að innkalla tölvu sem Íbúahreyfingin hefur afnot af í þeim tilgangi að uppfæra hugbúnað sem á henni er, en vart hefur verið töluverðra vandræða hjá öðrum fulltrúum í bæjarráði og bæjarstjórn sem ekki nota opinn hugbúnað.. Íbúahreyfingin mótmælti þessu og hefur sett upp opinn hugbúnað á þessa tölvu og með því sparað hugbúnaðarleyfi fyrir sem hugsanlega nemur tugum þúsunda. Engin vandamál hafa komið upp við notkun á henni.
Það er trúlega minni breyting fyrir fólk að skipta úr Office 2003 yfir í OpenOffice, sem er opinn og frjáls hugbúnaður, heldur en að fara yfir í Office 2007, en við gengum lengra og skiptum úr Windows yfir í Ubuntu.
Við hvetjum íbúa til þess að aðstoða okkur við að þrýsta á að bæjarfélagið og skólar taki upp opinn hugbúnað.
Að lokum hvetjum við íbúa til þess að taka þátt í starfi og baráttu Íbúahreyfingarinnar fyrir opinni stjórnsýslu, gagnsæi og auknu íbúalýðræði.
Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar,
jonb@ibuahreyfingin.is
Greinin birtist í Mosfellingi 24.febrúar 2011
by ibuahreyfingin | 24 Feb, 2011 | Greinar
Viðmiðunarupphæð fjárhagsaðstoðar var á dagskrá fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar þann 25. janúar 2011. Á fundinum lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar það til að afgreiðslu málsins yrði frestað í ljósi þess að von var á birtingu neysluviðmiða af hálfu Velferðarráðuneytisins. Auk þess lágu fyrir nefndinni tilmæli til sveitarstjórna frá ráðherra um að þær tryggi að einstaklingar hafi að lágmarki sambærilega fjárhæð og atvinnuleysisbætur til framfærlsu á mánuði, eða tæpar 150.000 krónur á mánuði. Nefndin ákvað hinsvegar að leggja það til við bæjarstjórn að viðmiðunarupphæðin taki breytingum í samræmi við verðlagsþróun. Þannig hækki fjárhæðin sem um ræðir fyrir einstakling úr 125.540 krónum á mánuði í 128.627 þúsund krónur á mánuði frá og með janúar 2011.
Við afgreiðslu málsins lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar því fram eftirfarandi bókun: ,,25. grein Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna hljóðar svo: Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.
Þá hljóðar 76. gr. íslensku stjórnarskrárinnar svo: Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.
Í ljósi ofangreinds harmar fulltrúi Íbúahreyfingarinnar ákvörðun nefndarinnar því ljóst er að samþykkt viðmiðunarupphæð dugar ekki til framfærslu og brýtur þar með í bága við stjórnarskrá og mannréttindi.”
Bæjarstjórn ákvað svo á fundi sínum þann 2. febrúar 2011, gegn atkvæði fulltrúa Íbúahreyfingarinnar, að staðfesta ákvörðun meirihluta fjölskyldunefndar.
Það skiptir máli hverjir stjórna í Mosfellsbæ.
Kristbjörg Þórisdóttir
fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í fjölskyldunefnd
Þórður Björn Sigurðsson
varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar
Greinin birtist í mosfellingi 24. febrúar 2011
by ibuahreyfingin | 24 Feb, 2011 | Greinar
Í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun 2011-2014 gerði Íbúahreyfingin athugasemd við að Mosfellsbær væri í sjálfskuldarábyrgð á láni til byggingafyrirtækis í einkaeigu upp á 246 milljónir kr. Tillaga Íbúahreyfingarinnar um að senda málið til Innanríkisráðuneytis var felld en samþykkt að leita álits lögmanns bæjarins og hefur það nú borist bæjaryfirvöldum. Niðurstaðan er einhlít, þ.e. það er að sjálfskuldarábyrgðin stangist á við sveitarstjórnarlög.
Þegar ráðist var í einkarekna samfélagsuppbyggingu í Mosfellsbæ var því heitið að enginn kostnaður félli á íbúa Mosfellsbæjar, eða eins og Haraldur Sverrisson orðaði það í greininni Ný hugmyndafræði um uppbyggingu íbúðahverfa haustið 2005: „Ljóst er að kostnaður við uppbyggingu leggst ekki á þá íbúa sem fyrir eru í bæjarfélaginu heldur stendur framkvæmdin sjálf undir þeim kostnaði. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir Mosfellinga.“
Þegar skrifað var upp á sjálfskuldarábyrgðina hinn 24. september 2009 var löngu ljóst að uppbyggingin í Helgafellslandinu hefði siglt í strand. Til marks um það er að í september 2008, fyrir Hrun, var farið að bjóða lóðirnar þar á á vaxtalausum lánum. Samkvæmt könnun Ara Skúlasonar hagfræðings á umfangi byggingarbólunnar var hlutfall byggingarmagns af fjölda íbúða í sveitarfélaginu 37,9% eða um 1000 lóðir og íbúðir á ýmsum stigum. Sama hlutfall var undir 20% í þeim sveitarfélögum sem komu næst á eftir. Samkvæmt upplýsingum í greinargerð með nýju aðalskipulagi er sveitarfélagið með lóðir og íbúðir sem uppfylla byggingarþörf næstu átta ára.
Í stað þess að viðurkenna skipbrotið sem einkavæðing skipulagsmála í sveitarfélaginu hafði í för með sér og láta einkafyrirtækið leysa sinn vanda, eins og einkafyrirtæki eiga að gera, var tekin sú ákvörðun, þvert á lög og pólitísk loforð, að ábyrgjast skuldir einkafyrirtækis. Það hefði væntanlega ekki verið þægilegt fyrir sitjandi meirihluta að fara inn í kosningar vorið 2010 ef bæjarbúar hefðu fengið réttar upplýsingar um afleiðingar hinnar „nýju hugmyndafræði“.
Í minnisblaði bæjarstjóra þar sem brugðist er við álitinu er því borið við að bæjaryfirvöld hafi talið að gerningar þeir sem til umfjöllunar eru í álitinu falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélagsins, en framkvæmdastjóri bæjarfélags má skv. sveitastjórnarlögum ábyrgjast fyrir hönd bæjarfélagsins slík minniháttar viðskipti. Íbúahreyfingin hefur vísað þeirri túlkun á bug enda um mjög háa fjárhæð að ræða og viðskipti sem tæpast eiga sér hliðstæðu í bókhaldi bæjarfélagsins. Þá ber meðferð málsins þess merki að ekki hafi verið litið á afgreiðslu þess sem daglegan rekstur. Málið var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur sveitarfélagsins. Þá skrifar prókúruhafi bæjarins undir ábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.
Til að kóróna þann trúnaðarbrest sem málið er gagnvart íbúum Mosfellsbæjar var það meðhöndlað sem trúnaðarmál í stjórnkerfi Mosfellsbæjar þar til Íbúahreyfingin gekk í að afhjúpa það.
Undirritun sjálfskuldarábyrgðarinnar er hvoru tveggja pólitískt skipbrot einkavæðingarstefnunnar og væntanlega lögbrot. Það er ekki frambærilegt fyrir kjörna fulltrúa að segja: „Ég vissi ekki betur“ þar sem þeim ber skylda til samkvæmt sveitarstjórnarlögum að leita réttra upplýsinga.
Í ljósi þessa fór Íbúahreyfingin fram á afsögn þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á sjálfskuldarábyrgðinni á síðasta fundi bæjarstjórnar. Tillagan var felld með 6 atkvæðum.
Kristín I. Pálsdóttir,
ritari Íbúahreyfingarinnar
Greinin birtist í Mosfellingi 24. febrúar 2011
by ibuahreyfingin | 17 Feb, 2011 | Fréttir
Í byrjun febrúar 2011 barst bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ lögfræðiálit frá LEX sem sveitarfélagið lét gera vegna fyrirgrennslan Íbúahreyfingarinnar á lögmæti sjálfskuldarábyrgðar Mosfellsbæjar á láni Landsbanka til Helgafellsbygginga upp á 246 milljónir. Í innihaldi álitsins felst viðurkenning á því sjónarmiði sem Íbúahreyfingin hefur haldið á lofti, það er að umrædd sjálfskuldarábyrgð stangist á við sveitarstjórnarlög.
Í minnisblaði bæjarstjóra þar sem brugðist er við álitinu er því borið við að bæjaryfirvöld hafi talið að gerningar þeir sem til umfjöllunar eru í álitinu falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélagsins, en framkvæmdastjóri bæjarfélags má skv. sveitastjórnarlögum ábyrgjast fyrir hönd bæjarfélagsins slík minniháttar viðskipti. Íbúahreyfingin vísar þeirri túlkun á bug enda um mjög háa fjárhæð að ræða og viðskipti sem tæpast eiga sér hliðstæðu í bókhaldi bæjarfélagsins. Þá ber meðferð málsins þess merki að ekki hafi verið litið á afgreiðslu þess sem daglegan rekstur. Málið var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur sveitarfélagsins. Þá skrifar prókúruhafi bæjarins undir ábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.
Þegar ráðist var í uppbyggingu íbúðahverfa samkvæmt „nýrri hugmyndafræði“ Sjálfstæðisflokksins um einkarekna samfélagsuppbyggingu var því heitið að enginn kostnaður félli á íbúa Mosfellsbæjar, eða eins og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, orðaði það í blaðagrein haustið 2005:„Ljóst er að kostnaður við uppbyggingu leggst ekki á þá íbúa sem fyrir eru í bæjarfélaginu heldur stendur framkvæmdin sjálf undir þeim kostnaði. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir Mosfellinga.“
Undirritun sjálfskuldarábyrgðarinnar virðist því vera hvoru tveggja pólitískt skipbrot einkavæðingarstefnunnar og lögbrot. Í ljósi þess trúnaðarbrests sem orðinn er milli Mosfellinga og þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á sjálfskuldarábyrgðinni fór Íbúahreyfingin fram á afsögn umræddra kjörinna fulltrúa á 552. fundi bæjarstjórnar í gær. Þá vill Íbúahreyfingin að málinu verði vísað til úrskurðar Innanríkisráðuneytisins.
Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ
S: 897 9858
www.ibuahreyfingin.is
PS. Um Helgafellsbyggingar og Mosfellsbæ
Hjálagt er lögfræðiálit LEX.
by ibuahreyfingin | 17 Feb, 2011 | Fréttir
Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi, bókaði eftirfarandi á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 16. febrúar 2011 vegna umfjöllunar um sjálfskuldarábyrgðar bæjarins á láni til einkaaðila:
Bókun 1
Í námskeiðsefni Sambands Ísl. sveitarfélaga Hlutverk og ábyrgð sveitarstjórnarmanna eftir Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, segir:
„Sveitarstjórnin er æðsta stjórnvald sveitarfélagsins. Sveitarstjórnarmaðurinn ber þar af leiðandi, sem fulltrúi í sveitarstjórn, hina endanlegu pólitísku ábyrgð á öllu sem gerist innan stjórnkerfis sveitarfélagsins, jafnvel þótt honum hafi ekki verið kunnugt um tiltekið mál. Sveitarstjórnarmaðurinn ber ábyrgð á ákvörðunum sem hann hefur átt þátt í að taka en það er líka hægt að draga hann til ábyrgðar ef hann hefur ekki brugðist við aðstæðum sem hann hefði átt að bregðast við.
Í lögfræðiáliti sem lögmannsstofan Lex vann fyrir Mosfellsbæ vegna þess máls sem hér er til umræðu segir:
„Fyrir liggur því að ábyrgð á lánveitingum til handa Helgafellsbyggingum hf. uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga enda var félagið hvorki í eigu sveitarfélagsins né í eigu annarra opinberra aðila á þeim tíma sem umræddir gerningar voru framkvæmdir.“
6. mgr. 73. gr. kveður á um að sveitarstjórnum sé óheimilt að ábyrgjast skuldir einkaaðila og um ákvæðið segir í áliti Lex að það „er talið fortakslaust og ófrávíkjanlegt þegar ábyrgðir sveitarfélaga eru veittar.“
Í ljósi þess sem að framan greinir fer Íbúahreyfingin fram á afsögn þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á 246 milljóna sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar á láni til einkaaðila.
Íbúahreyfingin fer fram á að málinu verði vísað til úrskurðar Innanríkisráðuneytisins.
Þá leggur Íbúahreyfingin til að tekið verði til sérstakrar skoðunnar hvers vegna endurskoðendur gerðu engar athugasemdir á ársreikningum varðandi þessi meintu lögbrot fyrrverandi bæjarstjórnar. Draga verður faglega tortryggni endurskoðendanna í efa í ljósi þess að þeir telja sig ekki geta greint hvað teljist til daglegs reksturs, skv. umbeðnu áliti þeirra, en hér er um að ræða viðskipti sem eiga sér enga hliðstæðu í bókhaldi sveitarfélagsins.
Bókun 2
6. mgr. 73. Gr. Sveitarstjórnar hljóðar svona:
„Eigi má binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Prókúruhafa sveitarsjóðs er þó heimilt fyrir hönd sveitarfélags að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.“
Í bréfi bæjarstjóra er því borið við að sjálfskuldarábyrgð bæjarins sé til komin vegna túlkunar á orðalaginu „daglegur rekstur“.
Í fyrsta lagi er álit Lex alveg skýrt að þessu leiti en þar segir:
„Þótt hugtakið „daglegur rekstur” sé ekki skilgreint sérstaklega í sveitarstjórnarlögunum, þá má með hliðsjón af venjulegri orðskýringu, öðrum ákvæðum laganna og með hliðsjón af eðli og umfangi starfseminnar, afmarka hugtakið við það sem getur talist eðlilegt í daglegum störfum framkvæmdastjóra, þ.e. þeim störfum sem hann kann að þurfa að framkvæma daglega. Alla jafna myndu þannig ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar ekki falla undir hinn daglega rekstur.“
Í öðru lagi er málsmeðferðin í sjálfri sér viðurkenning á því að ekki var litið á afgreiðslu málsins sem daglegan rekstur. Það var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur bæjarins, enda skrifar prókúruhafi bæjarins undir sjálfskuldarábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.
Íbúahreyfingin lítur svo á að hagsmunagæsla fyrir íbúana geti aldrei falið í sér lögbrot.