Brasilíska leiðin í samráðsmálum

johannesburg-slums

Íbúahreyfingin lagði nýverið fram tillögu í bæjarráði um að gera íbúum kleift að taka þátt í gerð fjárhagsáætlunar. Tillagan hlaut jákvæðar undirtektir og sem fyrsta skref ætlar bæjarstjóri að ríða á vaðið og halda kynningarfund með íbúum um fjárhagsáætlun 2015. Í vor er síðan stefnt að víðtækara samráði við íbúa þegar vinna við fjárhagsáætlun 2016 fer af stað.

Tilhugsunin um að taka þátt í fjárhagsáætlunargerð kann að hljóma fráhrindandi fyrir marga en þegar betur er að gáð eru það samt peningarnir sem ráða úrslitum um í hvaða verkefni er ráðist. Að taka þátt í fjárhagsáætlunargerð er því einhver tryggasta leið íbúa til áhrifa.

Þekkt dæmi um þátttöku íbúa í fjárhagsáætlunargerð er frá Brasilíu. Í bæ einum höfðu nýlega farið fram kosningar og segir sagan að bæjarstjórinn hafi staðið ráðþrota gagnvart fátækt sem var mikil í bænum. Hann ákvað því við gerð fjárhagsáætlunar að kalla íbúa að borðinu til að fá frá þeim hugmyndir um hvernig best væri að takast á við vandann. Íbúar reyndust afar úrræðagóðir og fylgdu því fleiri borgir í kjölfarið. Það sem vekur athygli í þessu máli er hvað bæjarstjórinn sýndi íbúum mikið traust. Hann gaf sig ekki út fyrir að geta leyst málið einn síns liðs eins og venjan er í pólitík. Þetta aðdáunarverða uppátæki hefur síðan hlotið hljómgrunn um víða veröld og meira að segja haft áhrif hér á Íslandi.

Segja má að í þessum anda sé fyrirkomulag sem Reykjavíkurborg tók upp á síðasta kjörtímabili en það felur í sér að hverfasamtök fá til ráðstöfunar ákveðna fjárhæð til verkefna sem íbúar leggja til og forgangsraða eftir vægi.

Þessi útfærsla á íbúalýðræði er þess virði að skoða nánar. Á umræddum fundi gerði Íbúahreyfingin því að tillögu sinni að bæjarráð kannaði hvort ekki væri grundvöllur fyrir áþekku fyrirkomulagi hér og var því vel tekið.

En sveitarstjórnir hafa fleiri leiðir til að hvetja íbúa sína til þátttöku í mótun samfélagsins. Ein af þeim er að styðja við bakið á sjálfsprottnu starfi einstaklinga og félagasamtaka með styrkjum. Innan Evrópusambandsins hafa styrkveitingar skilað árangri en til þess þarf auðvitað regluverk sem gerir öllum jafn hátt undir höfði og ýtir undir farsæla þróun á öllum sviðum samfélagsins. Á Íslandi hafa augu fólks verið að opnast fyrir þeim möguleika að stuðla að nýsköpun með markvissum styrkveitingum. Hér í Mosfellsbæ hefur Íbúahreyfingin lagt til að fyrirkomulag styrkveitinga verði endurskoðað og betrumbætt og er nú verið að vinna úttekt á styrkjaumhverfinu.

Að lokum er vert að rifja upp þau alkunnu sannindi að forsenda þess að íbúar geti tekið þátt í umræðum um málefni bæjarfélagsins er að þeir fái greinargóðar upplýsingar um þau mál sem verið er að vinna í á vettvangi bæjarmála. Ritun fundargerða og vefur sveitarfélagsins hefur í því sambandi sætt gagnrýni. Undirrituð gerði tilraun til fá tillögu samþykkta um að bæta ritun fundargerða á síðasta kjörtímabili en fyrirstaðan var mikil. Á þessu kjörtímabili hefur málið oftsinnis komið til umræðu og mun gera þar til úr verður bætt. Eða er ekki svo að þolinmæðin þrautir vinnur allar?

Sigrún Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar

Samskiptavandi ríkis og sveitarfélaga

pudiÁ vettvangi sveitarfélaga heyrist oft kvartað yfir því að verkefni sem tekin hafa verið yfir frá ríkinu séu dýrari í rekstri en til stóð. Á undanförnum vikum hef ég heyrt nokkrar skýringar á þessu.
  1. Kostnaður vegna lagabreytinga sé ekki metinn að verðleikum og rekstur verkefna s.s. málefni fatlaðra því dýrari en til stóð í upphafi;
  2. Sveitarfélögin hafi sjálf ekki verið nógu vel undirbúin og hafi haft misjafna burði til að taka yfir verkefni frá ríkinu;
  3. Tillitsleysi ríkisvaldsins sem kristallast í því að það heldur ekki gerða samninga fyrri ríkisstjórna sem aftur dregur úr mætti sveitarfélaga til að gera og standa við langtímaáætlanir í fjármálum;
  4. Almennt samráðs- og sambandsleysi ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að ráðstöfun fjár og fjármálastjórnun sameiginlegra verkefna á sviði velferðar-, samgöngu- og menntamála.
Þetta er ekki uppörvandi upptalning og heldur ekki tæmandi en ef marka má það sem nýverið kom fram á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðalfundi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ríkir ákveðið stjórnleysi í fjármálum þessara tveggja meginstoða samfélagsins vegna samskiptaleysis sem líklegt er að kosti þjóðina mikla fjármuni, –  að því er virðist allsendis að óþörfu.
Sigrún Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar

Fjárhagsáætlun 2015 – persónur og leikendur

IMG_1060Þessa dagana eru starfsmenn Mosfellsbæjar í óða önn að ljúka við drög að fjárhagsáætlun en hún segir til um í hvaða verkefni tekjum bæjarsjóðs og skattpeningum íbúa verður varið á næsta fjárhagsári. Kjörnir fulltrúar í nefndum og ráðum hafa enn ekki fengið að skoða herlegheitin en það stendur til að kynna þau í lok mánaðar. Annatími er því framundan hjá pólitíkusum í Mosfellsbæ.

Íbúahreyfingin hefur haft ýmislegt við framkvæmdina á þessu árlega verkefni að athuga og telur að lýðræðislegra væri að fastanefndir hefðu stefnumarkandi hlutverki að gegna og kæmu að vali á verkefnum strax í upphafi vinnunnar en ekki þegar að því er að mestu lokið eins og nú er.

Fjárhagsáætlun er unnin í umboði bæjarráðs og samkvæmt ákvæði í samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar um verkefni ráðsins, gr. 31, hafa embættismenn tillögurétt við gerð hennar. Fastanefndir hafa samkvæmt sömu samþykkt þó aðeins umsagnarrétt um drögin.

Þegar málið er skoðað er þetta eina samþykkt um stjórn sveitarfélags á höfuðborgar-svæðinu sem hefur að geyma ákvæði þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar eru settir skör lægra en embættismenn þegar kemur að því að hafa áhrif á hvernig fjármunum sveitarfélags er ráðstafað. Hverju það sætir er í raun stjórnsýslulegt rannsóknarefni. Líklegasta skýringin er þó sú að bæjarfulltrúar þess meirihluta sem stóð
að samþykktinni hafi verið að útvíkka sitt vald umfram það sem þeim bar á kostnað fastanefndanna því eins og málum er háttað er bæjarstjóri, og oddviti meirihlutans, yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins og lýtur það hans stjórn en það gera fastanefndirnar ekki.

Í sveitarfélögum á Norðurlöndum er löng hefð fyrir vel skipulagðri og öflugri stjórnsýslu þar sem kjörnir fulltrúar sinna stefnumörkun og eftirliti með stjórnsýslunni en koma ekki að daglegum rekstri og ákvörðunum en þannig er því háttað þar sem stjórnsýsla er veik og mörk óljós á milli stjórnsýslu og kjörinna fulltrúa. Á Íslandi þykir jafnvel sjálfsagt að æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar sé jafnframt kjörinn fulltrúi sem á þá að hafa eftirlit með sjálfum sér. Álíka starfshættir áttu stóran þátt í Hruninu. Hér er því komið næsta stjórnsýslulega úrlausnarefnið, að þessu sinni samstarfsverkefni milli löggjafans og sveitarfélaganna. 

Það þarf varla að taka fram að öflug stjórnsýsla sem setur fram tillögur við gerð fjárhagsáætlunar er mikilvæg hverju sveitarfélagi en það að fastanefndir hafi lítið sem ekkert um verkefnavalið að segja er hins vegar umhugsunarefni í samfélagi sem kennir sig við lýðræði.

Íslensk stjórnmál einkennast oftar en ekki af meirihlutaræði. Við þannig aðstæður mega sjónarmið minnihlutans sín lítils. Við í Íbúahreyfingunni segjum að stjórnmál eigi að snúast um málefni en ekki flokka og fylkingar. Vinnan framundan í fjárlagagerðinni verður prófsteinn á hvort verður ofan á.

Sigrún Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar

Skólaskýrsla – Vinnuplagg eða glansmynd?

Skólaskýrsla – Vinnuplagg eða glansmynd?

mosoNýlega var ársskýrsla skólaskrifstofu Mosfellsbæjar kynnt í bæjarstjórn. Um er að ræða greinargott og efnismikið plagg nema hvað þar vantar upplýsingar um þær miklu áskoranir sem skólayfirvöld í sveitarfélaginu standa frammi fyrir. 

Undirrituð sá sig knúna til að gera athugasemd við þetta og nefndi í því sambandi eitt lítið dæmi um vandamál sem ekki er nefnt í skýrslunni en það eru óralangir biðlistar í píanónám í Listaskóla Mosfellsbæjar. Skortur á slíkum upplýsingum er gegnumgangandi í skýrslunni.
Nú er ársskýrslum almennt ætlað að gefa glögga mynd af rekstri og þeim vandamálum sem verið er að kljást við. Fyrir okkur bæjarfulltrúa er afar brýnt að ársskýrslan gefi raunsanna mynd. Við þurfum að fá að vita hvar skórinn kreppir. Eða hvernig eigum við annars að takast á við þá erfiðleika, litla og stóra, sem svo sannarlega er við að stríða í skólamálum hér í bæ?
En upplýsandi og raunsönn ársskýrsla er ekki bara mikilvæg fyrir bæjarfulltrúa, heldur líka þá íbúa sem áhuga hafa á að fylgast með og jafnvel blanda sér í umræðuna. Þegar dregin er upp glansmynd sem gefur til kynna að allt sé í himnalagi geta bæjaryfirvöld misst af því tækifæri að eiga gjöful skoðanaskipti við íbúa um skólamálin. Önnur afleiðing gæti verið trúnaðarbrestur sem litar samskiptin við sveitarfélagið.
Á fundinum örlaði á vilja D-lista til að skoða málið og vona ég svo sannarlega að af því verði.
Sigrún Pálsdóttir
bæjarfulltrúi
ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is

Mosfellsk menning

Í hvernig bæ viljum við Mosfellingar búa? Ætlum við að vera úthverfi í Reykjavík eða sjálfstætt bæjarfélag með sterkan staðarbrag? Hingað til hefur slagorðinu „Sveit í borg“ og hugmyndinni um heilsueflingarbæinn verið haldið á lofti. En hvað blasir við ferðalöngum sem keyra í gegnum bæinn okkar? Jú, helstu kennileitin eru firmamerki skyndibitastaða og bensínstöðva.
Mikil gróska er í listalífi Mosfellsbæjar, umhverfið veitir innblástur og tækifæri til listsköpunar eru fjölmörg. Þetta þekki ég af eigin raun en ég hef búið og starfað í bænum í tvo áratugi. Ég hef komið að ýmsum menningarviðburðum og á síðasta kjörtímabili var ég varafulltrúi Íbúahreyfingarinnar í menningarmálanefnd og kynntist menningarmálunum frá þeirri hlið.
Það styrkir ímynd sveitafélagsins að inntak sköpunar spretti úr því félagslega umhverfi sem við hrærumst í ásamt náttúru þess og sögulegri arfleið. Til að efla hinn félagslega þátt þarf að hafa stað til að vera á. Einn slíkur er Bókasafn Mosfellsbæjar en þar er hægt að hitta sveitunga, setjast niður við borð, fá sér kaffisopa og lesa blöð eða bækur. Listunnendur geta einnig notið listar í Listasalnum og öll höfum við tækifæri til þess að spjalla við starfsfólk um daginn og veginn. Íbúahreyfingin leggur áherslu á að þetta góða starf verði stutt enn frekar í framtíðinni enda menningarperla í þjónustukjarnanum.
Hins vegar vantar sameiginlegan vettvang þar sem hægt er að skapa list og menningu, vettvang þar sem félagsskapur og sköpun tengjast. Við í Íbúahreyfingunni viljum öflugra samráð við íbúa um menningarmál og nú þegar leigusamningur staðarhaldara Hlégarðs verður ekki framlengdur er tækifæri til að finna nýtt hlutverk fyrir félagsheimili Mosfellinga. Íbúahreyfingin hefur lagt til að íbúar hafi beinni aðgang að Hlégarði. Okkar hugmynd er setja saman vinnuhóp til að fara yfir hugmyndir um nýtingu Hlégarðs og efna síðan til íbúasamráðs og jafnvel kosninga um framtíðarhlutverk hans.
Þá eru húsnæðismál tónlistarskólans ekki frágengin eftir að leigusamningur um húsnæði í Þverholti rennur út og við í Íbúahreyfingunni teljum heppilegt að færa tónlistarkennslu nær grunnskólunum og tengja hana þannig betur skóladegi nemenda. Þá má benda á að reglulega koma fram efnilegir tónlistarmenn í bænum en æfingahúsnæði sárvantar fyrir fyrir þá.
Íbúahreyfingin leggur áherslu á að styrkjaumhverfi menningarmála sé endurskoðað og framlag til þeirra aukið. Við teljum að menningarlíf Mosfellsbæjar bjóði upp á fjöldamörg sóknarfæri sem myndu, ef þau eru nýtt, gera bæinn okkar bæði betri og skemmtilegi. Slík þróun gæti líka stuðlað að menningartengdri atvinnusköpun í bæjarfélaginu.

Hildur Margrétardóttir

Allt upp á borð – Kjósum X-M

Íbúahreyfingin tók sæti í fulltrúaráði Eirar haustið 2010. Eitt af því fyrsta sem Guðbjörg Pétursdóttir fulltrúi okkar gerði var að óska eftir því að fá að sjá fundargerðir stjórnar Eirar. Hún bað líka um að fá í hendur ársreikningana. Þessu var hafnað.
Nú upphófst mikið argaþras sem að lokum leiddi til þess að nokkrir fulltrúar tóku sig saman og upplýstu fjölmiðla um stjórnarhætti á Eir. Þá grunaði ekki að búið væri að veðsetja íbúðir íbúðarétthafa í öryggisíbúðum upp í rjáfur án þeirra vitneskju.
Það má geta þess að fulltrúi Sjálfstæðisflokks Mosfellsbæjar í stjórn Eirar, Hafsteinn Pálsson, staðhæfði við Guðbjörgu að þetta væri nú bara elliheimili þar sem allt væri í lagi. Annað koma á daginn.
Þetta dæmi sýnir að ekkert er mikilvægara en gegnsæi í rekstri og það skiptir máli hverjir stjórna.
Þessi greinarstúfur er prentaður í dreifiriti Íbúahreyfingarinnar, Framboð með framtíð.

Pin It on Pinterest