Mér þykir vænt um þennan skóla

Mér þykir vænt um þennan skóla

ursulaFyrir meira en 30 árum fluttum við hjónin í Mosfellssveit eins og sveitarfélagið hét þá. Á þeim tíma gat maður fest kaup á húsnæði sem var talsvert ódýrara en í Reykjavík. Okkar börn ólust upp hér í bænum og fengu sína grunnskólamenntun í Varmárskóla. Þá var þetta eini skólinn á staðnum.

Ég hef alltaf unnið hér í bænum. Fyrst í leikskólanum Hlíð og sem stundakennari í Gagnfræðaskólanum eins og eldri deild Varmárskólans hét þá.
Ört vaxandi sveitarfélag varð að bæjarfélagi. Það hafði ekki undan við að skapa rými fyrir öll skólabörnin. Varmárskólinn var tvísetinn, kennsla bæði fyrir og eftir hádegi. Ég var þá þegar starfandi sem myndmenntakennari. Á þeim tíma þekkti ég ennþá öll börnin í bænum því ég kenndi þeim öllum í mínu fagi á yngra stigi. Svo var byggt við skólann sem var forsendan til þess að gera hann einsetinn. Mér þótti æðislegt að fá almennilega fagstofu fyrir myndmennt sem var ekki í kjallaranum. Góð birta og nægilegt rými. Því miður eru margar fagstofur ennþá í dag í kjallara sem telst ekki vera gott húsnæði.
Árið 2001 voru Gagnfræðaskólinn og Varmárskólinn sameinaðir í einn skóla og þar með varð til einn stærsti grunnskóli á landinu.
En bæjarfélagið stækkaði áfram eins og allar spár gerðu reyndar ráð fyrir. Útibú Varmárskólans á vestursvæði varð til. Og svo reis Lágafellsskólinn loksins sem sjálfstæður skóli. Krikaskólinn bættist við á sérstökum forsendum. En bæjarfélagið stækkar ennþá hratt og einhvernveginn virðumst við alltaf vera á eftir þróuninni í skólamálum. Bráðarbirgðarskúrar hafa skreytt Lágafellsskólann lengi vel og sama virðist í nánari framtíð vera upp á teningum í Varmárskóla.
Mér þykir vænt um þennan skóla þar sem ég er búin að vinna í meira en 20 ár. Þetta er vinalegur skóli með góðu starfsfólki og faglegri starfsemi þar innan veggja. Nemendafjöldin er kominn að vísu fyrir löngu upp fyrir það sem þykir æskilegast. Þetta gerir allt skipulag erfitt og álagið eykst bæði á starfsfólk og nemendur.
Mér þykir mjög vænt um þennan skóla þar sem börnin mín fengu góða menntun. Og mér sárnar hve lítið er áætlað í viðhald, bætur og rekstur í þennan skóla. Hann er orðinn rúmlega 50 ára og með meira en 700 nemendur í frekar þröngum húsakosti. Það segir sig sjálft að hann þarf á talsverðu fjármagni í endurbætur að halda. Ætli forgangsröðun sé ekki eitthvað skökk í fjárhagsáætlun bæjarins þar sem styrkir til gólfklúbbsins virðist vera hærra en það sem er áætlað til viðhalds í Varmárskóla?
Ekki er ennþá gert ráð fyrir öðrum varanlegum skóla miðsvæðis í Mosfellsbænum að svo stöddu. Ég leyfi mér að spyrja: Hvers vegna ekki? Eru bráðarbirgðarlausnir virkilega ódýrarar þegar upp er staðið? Er ekki tími kominn til að sinna skólamálunum í Mosfellsbænum betur en með einhverjum reddingum? Setjum skólamálin í fyrsta sæti!

Úrsúla Jünemann

Um birtingu fundargagna á vef Mosfellsbæjar

gognavefNýverið tók bæjarráð Mosfellsbæjar aðra umræðu um birtingu gagna með fundargerðum á vef. Eins og áður hefur komið fram er gleðiefni að rafræn birting fundargagna skuli vera komin á framkvæmdastig því henni fylgir mikið hagræði fyrir almenning sem getur framvegis sótt þau gögn sem hann vanhagar um á vefinn. Með því að veita rafrænan aðgang að fundargögnum er einnig verið að draga úr álagi á stjórnsýsluna sem hingað til hefur afgreitt gögn eftir beiðni.
Í málum sem þessu hefur framkvæmdin mikla þýðingu. Íbúahreyfingin hefur því gert við hana athugasemdir sem fallið hafa í grýttan jarðveg hjá hinum framboðunum.
Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að birting gagna á vef taki í einu og öllu mið af upplýsingalögum sem þýðir að öll gögn sem almenningur á rétt á að fá aðgang að skuli birt á vefnum. Það að birta sumt og annað ekki er líklegt til að valda tortryggni, auk þess sem það gefur tilefni til óöryggis um hvort gögn á vef gefa tæmandi upplýsingar um þau mál sem um ræðir sem aftur þýðir óþægindi fyrir þá sem eru að kynna sér mál og aukið álag á stjórnsýsluna o.fl..
Annar og ekki síður mikilvægur þáttur varðar úrvinnsluna. Þegar reglur um birtingu voru kynntar í bæjarstjórn voru það formenn nefnda, þ.e. fulltrúar meirihlutans sem áttu að gegna því embætti að velja gögn til birtingar á vef. Íbúahreyfingin gerði verulegar athugasemdir við þessa ráðstöfun því þar með væri málið sett í farveg sem væri enn og aftur til þess fallinn að vekja efasemdir um faglega framkvæmd og ala á tortryggni. Af umræðum á fundinum í morgun mátti ráða að fulltrúar í bæjarráði telja sig upp til hópa þess umkomna að meta gögn til birtingar. Samt er löggjöf um upplýsingamál flókin og  ljóst að kjörnir fulltrúar hafa ekki endilega þá sérþekkingu sem þarf til að meta hvað skuli birta og hvað ekki. Það hefur hins vegar fagleg og til þess bær stjórnsýsla.
Þrátt fyrir að nú sé búið að samþykkja reglurnar er framkvæmdin enn óljós. Upp komu hugmyndir um að formenn legðu ákvarðanir um birtingu gagna í dóm nefndanna og í tilteknum málum yrði þá leitað aðstoðar lögmanns bæjarins. Eftir umræðuna á fundinum í morgun verður ekki hjá því komist að álykta að málið sé ekki nógu vel undirbúið. Að mati Íbúahreyfingarinnar ætti hlutverkaskiptingin milli stjórnsýslu og kjörinna fulltrúa að vera skýr og málsmeðferðin hafin yfir allan vafa um hentistefnu og fálmkennd vinnubrögð. Kjörnir fulltrúar hafa í nægu að snúast og óþarfi að þeir séu að vasast í málum sem beinlínis kalla á sérfræðiþekkingu og geta varðað refsingu.
Í þessu máli felst gullið tækifæri til að efla stjórnsýslu Mosfellsbæjar og feta enn frekar inn á braut vandaðrar stjórnarhátta. Af hverju ekki að nýta það í stað þess að skilja annars gott framtak eftir í pólitískum átakafarvegi?
Þess ber að lokum að geta að Íbúahreyfingin er ekki að leggja til að gögn séu birt sem eðli málsins samkvæmt eru trúnaðargögn og varða persónulega hagi einstaklinga eða hafa að geyma viðkvæmar upplýsingar sem geta beinlínis skaðað hagsmuni fólks og fyrirtækja.
Bókun Íbúahreyfingarinnar á 1212. fundi bæjarráðs 13. maí 2015:
“Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur áherslu á að farið sé í einu og öllu að upplýsingalögum þegar ákvarðanir eru teknar um birtingu fundargagna á vef Mosfellsbæjar og jafnframt að ákvarðanir um birtingu gagna verði í höndum fagfólks í stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Að öðru leyti fagnar Íbúahreyfingin því framfaraskrefi sem í því felst að hefja birtingu fundargagna á vef bæjarins.”

Meira lýðræði í stjórnmálastarfi

pudiÞátttakendum á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga​ gæti fjölgað um 55 ef sú tillaga Íbúahreyfingarinnar nær fram að ganga á þinginu nú í apríl að öll framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn öðlist rétt til að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til setu á landsþingi með tillögurétt og málfrelsi.

Frá sjónarhóli lýðræðis er ávinningurinn ótvíræður. Eins og staðan er í dag njóta framboð ekki jafnræðis og minni framboð hafa hvorki möguleika á að láta rödd sína heyrast né sama aðgang að upplýsingum og stærri framboð um þau mál sem verið er að ræða á þessum stefnumótandi samráðsvettvangi sveitarfélaga á Íslandi.

Í sveitarstjórnarlögum er opnað á að framboð sem ekki ná því að fá kjörinn aðalmann í nefndir en eiga fulltrúa í sveitarstjórn eigi rétt á að tilnefna áheyrnarfulltrúa. Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að samskonar ákvæði verði virkja á vettvangi landsþings.

Meirihlutaræði hefur lengi verið lenska í stjórnmálastarfi á Íslandi. Í sveitarstjórnarlögum er hins vegar ekkert sem heitir meirihluti eða minnihluti, heldur eru kjörnir fulltrúar allir jafn réttháir fyrir lögum og beinlínis þeirra hlutverk að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í undirbúningi pólitískrar ákvarðanatöku.  Eins og fyrirkomulagið er í dag einoka stærri framboð víða málefnavinnuna. Það sem verra er er að skilningur á lýðræðislegum leikreglum er nokkuð almennt ekki meiri en svo að það þykir bara sjálfsagt að útiloka minni framboð frá þátttöku í undirbúningsvinnu. Lýðræðið fer því fyrir lítið og meirihlutaræði eða öllu heldur stjórnmál kúgunar tryggja sig í sessi.

Frá sjónarhóli jafnræðis verður ekki séð hvernig slík vinnubrögð geta viðgengist mikið lengur. Allavega er nokkuð ljóst að á meðan að þessi grunnstoð lýðræðisins öðlast ekki meira vægi í stjórnmálastarfi verður því takmarki seint náð að innleiða samræðustjórnmál á Íslandi. Íbúahreyfingin bíður því spennt eftir niðurstöðu landsþings.

Er lýðræði bara tómt vesen?

murinnLýðræðisást er örugglega ekki eitt af þeim hugtökum sem hægt er að nota til að lýsa þankagangi fulltrúa D-lista í bæjarráði Mosfellsbæjar en á fundi ráðsins í morgun var fjallað um að halda áfram vinnu starfshóps um fjölnota íþróttahús. Til hópsins var stofnað í aðdraganda kosninga síðastliðið vor og eiga D- og S-listi þar fulltrúa, auk þess sem fulltrúi frá V-lista bætist við í haust. Íbúahreyfingin er því eina stjórnmálaaflið sem ekki mun eiga fulltrúa í starfshópnum. Að gefnu tilefni lagði fulltrúi hennar því til að framboðinu yrði gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa en því höfnuðu Hafsteinn Pálsson og Kolbrún Þorsteinsdóttir  fyrir hönd D-lista.
Rökin sem fulltrúar D-lista færðu voru þeim ekki til sóma. Bæjarstjóri hélt því fram að starfshópurinn væri ekki pólitískur, auk þess sem starfið yrði erfiðara í vöfum ef lýðræðis yrði gætt og fulltrúum fjölgað.
En hvaðan koma þá meðlimir starfshópsins? Í honum sitja 3 fulltrúar D-lista, ásamt fulltrúa S-lista og bráðum V-lista, auk 1 fulltrúa Aftureldingar.
Hér er því hallað réttu máli til að koma sínu fram.  Því hefur oft verið fleygt að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki pólitísk hreyfing, heldur eitthvað í líkingu við náttúruafl. Undir þá varhugaverðu sjálfsímynd skrifar Íbúahreyfingin reyndar  ekki.

Og hvað með lýðræðið? Er það bara tómt vesen? Auðvitað þætti mörgum einfaldast að hverfa aftur til þess andlýðræðislega stjórnskipulags að einvaldar með fulltingi hirðar sinni taki allar pólitískar ákvarðanir. Það fyrirkomulag varð þó sem betur fer ekki ofan á. Samfélagssáttmálinn hljóðar því upp á að raddir allra framboða sem ná kosningu skuli heyrast í aðdraganda pólitískrar ákvarðanatöku. Að sjá til þess að svo sé er hlutverk okkar og ábyrgð sem ná kjöri í sveitarstjórn.

Tilgangur lýðræðisins er að tryggja að búið sé að skoða mál frá öllum hliðum áður en greitt er um þau atkvæði. Við þessa skipan bætist síðan jafnræðishugsjónin. Að útiloka framboð frá þátttöku í lýðræðislegu ferli í sveitarstjórn jafngildir því að segja leikreglum lýðræðisins stríð á hendur og þá bardagatækni ástundar D-listi í Mosfellsbæ.
Það verður að segjast eins og er að það er erfitt að tengja kjörorð Mosfellsbæjar við pólitískar athafnir D-lista. Þær eiga ekkert skylt við virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju, heldur bera þær þvert á móti vott um virðingarleysi, neikvæðni, afturhald og umhyggjuleysi.
Því miður er lítið hald í sveitarstjórnarlögum þegar kemur að því að virða og efla lýðræði. Meirihlutar geta að því er virðist hagað sér eins og þeim þóknast og sleppt lýðræðislegum leikreglum og það þótt ekkert sé til í sveitarstjórnarlögum sem heitir meirihluti og minnihluti. Séu hlutirnir skoðaðir í því ljósi að þessi aðgreining sé ekki til á aflsmunur framboða einungis við þegar kemur að atkvæðagreiðslu en ekki í aðdraganda og undirbúningi kostnaðarsamra framkvæmda, eins og að byggja fyrir marga langþráð og fjölnota íþróttahús. Í því máli þurfa öll framboð að eiga sinn fulltrúa.

Dropinn holar steininn og er þessi pistill ritaður með það í huga.

Bókun Íbúahreyfingarinnar:
Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur þau rök að starfshópurinn verði of fjölmennur ef Íbúahreyfingin bætist í hópinn ekki í anda lýðræðis. Eftir því sem fulltrúum fjölgar eykst einmitt lýðræðið.

Upphafleg tillaga hljóðaði svo:
Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að Íbúahreyfingunni verði gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa í starfshóp um fjölnota íþróttahús. Um verulega samfélagslega hagsmuni er að ræða. Það er ekki síst í þágu jafnræðis að þessi tillaga er sett fram. Hópurinn var skipaður á síðasta kjörtímabili og eðlilegt að hann endurnýi umboð sitt.

2 fulltrúar D-lista greiddu atkvæði gegn tillögunni. S-listi sat hjá.

Upplýsa þarf Mosfellinga um skólpmengun

skolpÁ fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 25. mars var ársskýrsla umhverfissviðs til umfjöllunar og lagði  Íbúahreyfingin til breytingar á efnistökum í kaflanum um fráveitu. Í orðaskaki á fundinum lét bæjarstjóri í veðri vaka að Íbúahreyfingin væri að níða niður skóinn af starfsmönnum sveitarfélagsins. Svo er þó alls ekki. Íbúahreyfingin metur starfsmenn Mosfellsbæjar mikils. Það sem fulltrúa Íbúahreyfingarinnar gekk til var að auka upplýsingagildi skýrslunnar. Tilefnið var því ekki að vega að starfsheiðri starfsmanna, heldur að upplýsa íbúa og kjörna fulltrúa um skólpmengun í ám og lækjum í Mosfellsbæ.

Það er óskemmtilegt að þurfa að sitja undir því þegar lögð er fram tillaga um breytt verklag að verið sé að smána starfsmenn. Hvað vakir fyrir bæjarstjóranum skal ósagt látið en ljóst að tilhæfulausar aðdróttanir af þessu tagi eru til þess fallnar að ala á tortryggni sem bæjarstjórinn telur að gagnist sér í pólitískri refskák því þær eru endurtekið efni í málflutningi hans og reyndar fleiri í hans flokki.

En  svo hljóðar tillaga Íbúahreyfingarinnar um breytt efnistök í ársskýrslu:

“Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að efnistök í ársskýrslum sviða Mosfellsbæjar verði tekin til endurskoðunar. Í nýútkominni ársskýrslu umhverfissviðs er einungis fjallað um fráveitumál á almennum nótum og verkefnin ekki tilgreind. Í þeim málaflokki er því lítið á skýrslunni að græða. Sveitarfélag er ekki fyrirtæki á hlutabréfamarkaði sem á allt sitt undir því að laða að fjárfesta. Ársskýrsla sveitarfélags þjónar öðrum tilgangi. Hún er mikilvægt vinnugagn fyrir kjörna fulltrúa, starfsmenn sveitarfélaga, lánardrottna o.fl. sem þýðir að í henni þarf að vera greinargott yfirlit yfir þau verkefni sem hafa verið unnin eða verið er að vinna, ekki síst þegar um skólpmengun er að ræða.”

Tillagan var felld með átta atkvæðum D-, S- og V-lista.

Styrkir hækki til Stígamóta

Styrkir hækki til Stígamóta

stigamotÍbúahreyfingin hafði sitthvað að segja um styrkveitingar Mosfellsbæjar til Stígamóta í vikunni, fyrst í fjölskyldunefnd og síðan í bæjarstjórn. Styrki þarf að hækka. Um Stígamót gilda sömu rök og um Kvennaathvarfið. Þangað sækir fjöldi kvenna og karla úr Mosfellsbæ ár hvert, stundum fleiri og stundum færri. Árin 2010-2014 voru um 3% þeirra sem leituðu til Stígamóta úr Mosfellsbæ.

Stígamót hafa unnið mikið þrekvirki í íslensku samfélagi og átt stóran þátt í því að fá kynferðisglæpi viðurkennda sem alvarleg afbrot og verið brautryðjendur í því að fórnarlömb slíkra glæpa fái nú aðstoð sérfræðinga við að takast á við áföllin. Starf Stígamóta er því ómetanlegt.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að bæjarstjórn óski eftir því við bæjarráð að fá aukaframlag úr bæjarsjóði til að hækka árlegan styrk til Stígamóta. Um hækkun styrks til  samtakanna gilda svipuð rök og fyrir aukinni fjárveitingu til Kvennaathvarfsins. Árin 2010-2014 voru um 3% þeirra sem leituðu til Stígamóta héðan.

Upphæð styrks til Stígamóta hefur staðið í stað í nokkur ár og er hún ákaflega lág sé tekið mið af þeirri þjónustu sem samtökin veita fórnarlömbum kynferðisofbeldis í Mosfellsbæ. Af þeirri ástæðu leggur Íbúahreyfingin til að styrkurinn verði hækkaður úr kr. 50 þúsund í kr. 150 þúsund á fjárhagsárinu 2015.

Fulltrúar D- og V-lista felldu tillöguna.

Pin It on Pinterest