by admin42 | 8 Nov, 2017 | Fréttir
Tónlistarlíf hefur lengi verið blómlegt í Mosfellsbæ, öflugur tónlistarskólli, lúðrasveit, hljómsveitir og kórar. Við vitum að tónlistarnám er gefandi veganesti út í lífið og tónlist það mikilvægur þáttur í daglega lífi og menningarstarfi að passa þarf upp á að hlúa að skólunum og öðru tónlistarstarfi samfélaginu til heilla.
Í tónlistarskólanum í Mosfellsbæ stunda um 250 nemendur nám og eru um 90 börn á biðlista eftir plássi. Ástæðan fyrir því að skólinn annar ekki eftirspurn er tvíþætt. Annars vegar plássleysi og hins vegar skortur á kennurum. Við plássleysinu reynir fræðslusvið að bregðast með því að færa kennsluna, að svo miklu leyti sem það er hægt, úr tónlistarskólanum inn í skólana. Í Varmárskóla er einhver kennsla á skólatíma og í Krikaskóla sömuleiðis. Í nýja skólanum í Helgafellslandi er síðan gert ráð fyrir sérstökum stofum til tónlistarkennslu til að nýta á skólatíma.
Skort á kennurum við skólann má rekja aftur til hrunsins 2008 en þá var stöðugildum fækkað. Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar var síðan einu stöðugildi bætt við og árið 2018 mun þeim fjölga um eitt og hálft. Fjöldi stöðugilda verður seinni part árs 2018 því orðinn sá sami og fyrir hrun. Frá þeim tíma hefur íbúum Mosfellsbæjar þó fjölgað umtalsvert og fyrirsjáanlegt að sú þróun haldi áfram.
Eitt af því sem meirihluti D- og V-lista hefur lagt áherslu á til að bregðast við vandanum er að efla samkennslu nemenda. Ljóst er að slíkt úrræði dugar einungis að hluta því tónlist er að miklu leyti einstaklingsmiðað nám. Sum hljóðfæri er ekki hægt að flytja svo auðveldlega á milli staða o.s.frv.
Tónlistarkennsla í grunnskólum er þó vissulega gott úrræði svo langt sem það nær. Í ört vaxandi sveitarfélagi verður hins vegar ekki hjá því komist að bæta aðstöðu tónlistarskólans og lúðrasveitarinnar. Til þess að svo verði ætti bæjarstjórn að setja sér tímasett markmið um að reisa hér tónlistarskóla með tilheyrandi aðstöðu til tónleikahalds. í skólanumi fengi lúðrasveitin líka skjól en aðstaða hennar í kjallara Varmárskóla er afar bágborin, bæði fyrir kennara og nemendur sem eru um 100 talsins.
Skipulagðar tómstundir barna eftir skóla hafa gert það að verkum að börn og ungmenni eiga sér athvarf að skóladegi loknum. Vinnudagurinn er langur á Íslandi og biðin oft löng eftir útivinnandi foreldrum. Í því felst ákveðið öryggi fyrir foreldra að börnin skuli eiga þess kost að stunda uppbyggilegt tómstundastarf í lok skóladags. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Okkar litla þjóð á tónlistar- og íþróttafólk á heimsmælikvarða.
Forvarnagildi tómstundastarfsins er líka ótvírætt. Á fáum stöðum er neysla áfengis- og vímuefna jafn lítil og meðal ungmenna á Íslandi. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér. Skipulögðu tómstundastarfi er þar fyrst og fremst fyrir að þakka. Við þurfum að passa að sofna ekki á verðinum og gæta þess að tapa ekki þessari einstöku sérstöðu.
Aðstöðu til tónlistarkennslu þarf sérstaklega að bæta. Í fullvissu um að fátt sé líklegra til að göfga manninn en tónlistin setti bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar fram tillögu um að bæta aðstöðu tónlistarskólans við gerð fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar 2018. Hún hljóðar svo:
“Tillagan gengur út á að bæta aðstöðu tónlistarskólans og fjölga stöðugildum til samræmis við fjölgun íbúa. Í tónlistarskólanum hafa verið langir biðlistar frá hruni en í kjölfar þess var stöðugildum kennara fækkað. Í fyrra var einu stöðugildi bætt við og nú á að fjölga þeim um eitt og hálft. Stöðugildi í lok 2018 verða því jafn mörg og þau voru fyrir hrun. Í millitíðinni hefur Mosfellingum þó fjölgað um 2500 og að sama skapi væntanlegum tónlistarsnillingum sem margir hverjir eru nú á biðlista. Skólann vantar meira húsnæði og er að einhverju leyti verið að vinna að því en betur má ef duga skal. Það þarf að bæta aðstöðuna og fjölga kennurum í takt við fjölgun íbúa.
Framboð á tónlistarkennslu getur ráðið úrslitum um hvort fólk flytur í Mosfellsbæ og því brýnt að setja meiri kraft og fjármagn í þetta verkefni.”
Sigrún H. Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
by admin42 | 3 Nov, 2017 | Fréttir
Íbúahreyfingin hefur lagt fram tillögu um að Mosfellsbær láti af hendi lóð og/eða setji kvaðir í skipulag til að auka framboð á ódýru leiguhúsnæði fyrir ungt fólk og efnaminni. Til að tryggja viðráðanlegt leiguverð er líklegast til árangurs að Mosfellsbær leiti eftir samstarfi við byggingarsamvinnufélög sem starfa án hagnaðarmarkmiða.
Nú hefur sveitarfélagið ekki margar lóðir til ráðstöfunar í þéttbýli en útlit er fyrir að það losni brátt undan samningi frá árinu 2016 um úthlutun og sölu lóðar upp á 12 hektara við Hafravatnsveg í Reykjahverfi. Gangi það eftir mætti hugsa sér að nýta landið til að skipuleggja íbúðabyggð á einkar fjölskylduvænum stað í samstarfi við byggingarfélag á borð við Íbúðafélagið Bjarg. Sé önnur staðsetning talin heppilegri væri hugsanlegt að Mosfellsbær gerði makaskipti á landinu.
Skv. lögum um almennar íbúðir 115/2016 er sveitarfélögum heimilt að veita 12% stofnframlag til að byggja og kaupa íbúðarhúsnæði sem ætlað er leigjendum sem eru undir tekju- og eignamörkum. Sveitarfélög hafa sum hver greitt stofnframlagið í formi lóða og út á það gengur tillaga Íbúahreyfingarinnar.
Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður hafa núþegar samið við Bjarg um byggingu á fjölda leiguíbúða en félagið, sem er sjálfseignarstofnun, leitar sérstaklega eftir samstarfi við sveitarfélögin. Það sem gerir samstarf við félagið fýsilegt er að það hefur traustan bakhjarl sem er í samstarfi við aðila sem hafa reynslu af rekstri leigufélaga í Skandínavíu og víðar. Það voru stéttarfélögin ASÍ og BSRB sem stofnuðu félagið í kjölfar framangreindrar lagasetningar um almennar íbúðir.
Reykjavíkurborg er eins farið og Mosfellsbæ að hafa lítið af lóðum til ráðstöfunar í þéttbýli en borgin hefur verið að auka framboð á leiguhúsnæði fyrir ungt fólk og efnaminni, námsmenn, fatlaða og fleiri lágtekjuhópa með því að setja kvaðir í skipulag um að fá lóðir til ráðstöfunar á nýjum skipulagsreitum til að byggja leiguíbúðir í samstarfi við íbúðafélög sem starfa án hagnaðarmarkmiða. Íbúahreyfingin sér fyrir sér að Mosfellsbær fari eins að.
Þess má geta að hér er ekki um að ræða félagslegt húsnæði, heldur félagslega aðgerð til að efla leigumarkaðinn og gera ungum og efnaminni kleift að leigja sér öruggt, ódýrt og vandað húsnæði. Skv. dómi sem féll innan ESB standast slíkar aðgerðir lög. Sveitarfélaginu er því ekkert að vanbúnaði.
Það sem gerir samstarf við Bjarg íbúðafélag spennandi er að það hefur mikinn metnað þegar kemur að hönnun íbúða. Um er að ræða leiguhúsnæði að danskri fyrirmynd “Almene boliger” þar sem leiga fer eftir efnum og er aldrei hærri en 25% af tekjum. Fólk á að eiga þess kost að skipta um húsnæði innan kerfisins eftir þörfum og búa í íbúðum á vegum félagsins alla ævi. Ráð er fyrir því gert að reksturinn sé sjálfbær, þ.e. að leiga standi alfarið undir kostnaði. Arðinn síðar meir á síðan að nota til að byggja fleiri íbúðir.
Íbúahreyfingin gerir ráð fyrir vistvænni byggð með blágrænar ofanvatnslausnir, græn þök, framúrskarandi almenningssamgöngur og lágmarks bílaeign.
Myndin er af “almene boliger” í Danaveldi.
Bjarg íbúðafélag
Lög um almennar íbúðir 115/2016
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
by admin42 | 28 Oct, 2017 | Fréttir
Bréf Hildar Margrétardóttur til bæjarráðs vegna óviðeigandi hegðunar nefndarmanns á 1325. fundi bæjarráðs:
Mér var illa misboðið á síðasta bæjarráðsfundi þar sem ég sat sem varamaður fyrir fulltrúa okkar í Íbúahreyfingunni. Hegðun nefndarmanns meirihlutans var með engu sæmandi á vettvangi bæjarráðs.
Á það skal bent að sá trúnaður sem ríkir á slíkum fundum á við um þau mál sem til umfjöllunar eru á fundinum en ekki um hegðun kjörinna fulltrúa eða eins og segir í 28. gr. sveitarstjórnarlaga: „Sveitarstjórnarmenn skulu gæta trúnaðar um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.”
Varðandi trúnað á milli sveitarstjórnarmanna þá segir í leiðbeiningum frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga
„Að vera í sveitarstjórn. Hlutverk og ábyrgð sveitarstjórnarmanna”:
Meginreglan er sú að sveitarstjórn á að starfa fyrir opnum tjöldum og það er æskilegt að kjörnir fulltrúar taki þátt í opinberri umræðu um þau mál sem eru til meðferðar í sveitarstjórn. Það þarf þó að ríkja ákveðinn trúnaður milli kjörinna fulltrúa þannig að þeir eigi ekki á hættu að verða úthrópaðir opinberlega vegna ummæla í hita leiksins. Birting slíkra ummæla, sem þjónar ekki málefnalegum tilgangi, hefur neikvæð áhrif á umræður og samstarf innan sveitarstjórnar. Almenna reglan er sú að nefndarfundir séu lokaðir en sveitarstjórnarfundir séu opnir almenningi. Sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum þegar slíkt telst nauðsynlegt vegna eðli málsins, sbr. 16. gr. svstjl. Þá vaknar sú spurning hvort það ríki þagnarskylda um allt sem rætt er fyrir lokuðum dyrum. Svo er ekki, það er eingöngu þagnarskylda um þau atriði sem eru þess eðlis að trúnaður á að ríkja um þau. Almenna viðmiðunin er að þátttakendur í lokuðum fundum eiga rétt á því að ummæli þeirra séu ekki birt eða það sé ekki vitnað opinberlega í þau, nema með þeirra samþykki. Það á að ríkja trúnaður um umfjöllunina sem slíka, en ekki um hvaða mál sé að ræða og ákvörðunina og rökstuðning fyrir henni. Sömuleiðis má upplýsa um afstöðu hvers og eins. Meirihlutinn í sveitarstjórn getur ekki lagt þagnarskyldu á fulltrúa í nefnd eða sveitarstjórn. Það að gögn séu stimpluð sem trúnaðarskjöl hefur ekki sjálfstætt gildi sem slíkt, heldur leiðbeiningargildi fyrir kjörna fulltrúa. Það þarf alltaf að líta til þess hvort um raunverulega trúnaðarupplýsingar sé að ræða lögum samkvæmt.
Eins og fram kemur í textanum um mikilvægi trúnaðar ríki á milli kjörinna fulltrúa. Ef að það er vilji meirihlutans í Mosfellsbæ að slíkur trúnaður ríki er mikillvægt að fundarmenn sýni hver öðrum tillitssemi og virðingu í allri umræðu. Með hegðun sinni á fundi bæjarráðs er áðurnefndur fulltrúi búin að brjóta allar forsendur fyrir slíkum trúnaði og hegðun hans á fundinum má fjalla um á almennum og opinberum vettvangi.
Samkvæmt 2. gr. siðaregla kjörinna fulltrúa hjá Mosfellsbæ
Í störfum sínum eru kjörnir fulltrúar bundir af lögum, reglum og samþykktum Mosfellsbæjar, sem og sannfæringu sinni. (Þeir skulu í störfum sínum og í umræðum um málefni Mosfellsbæjar stuðla að og viðhafa orð og athafnir sem samrýmast geti góðum mannlegum samskipum.)
Einnig stendur í sömu grein:
Kjörnir fulltrúar gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls.
Ég vil koma eftirfarandi á framfæri við bæjarráð:
Formaður bæjarráðs á að veita nefndarmanni áminningu ef hann hefur uppi óviðeigandi hegðun samkvæmt reglum um fundarsköp. Það gerðist ekki á þessum fundi. Ég talaði við formanninn einslega og bað hann um að veita nefndarmanni áminningu um að hegðun hans væri óviðeigandi. Það var gert eftir að fundi var slitið og þá sem almenn áminning til allra nefndarmanna. Ekki sá nefndarmaður ástæðu til að biðjast afsökun á hegðun sinni eftir almenn tilmæli formanns.
Ég leyfi mér að vitna í samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar:
15.gr um fundarsköp og ritun fundargerða
b. Vald forseta.
Skylt er bæjarstjórnarmanni að lúta valdi forseta í hvívetna varðandi það að gætt sé góðrar reglu. Ef bæjarstjórnarmaður ber aðra menn brigslum eða víkur verulega frá umræðuefninu skal forseti víta hann. Ef bæjarstjórnarmaður er víttur tvisvar á sama fundi getur forseti lagt til við bæjarstjórn að hann verði sviptur málfrelsi það sem eftir er fundar. Skal sú tillaga afgreidd umræðulaust. Ef bæjarstjórnarmaður hlýðnast ekki úrskurði forseta eða almenn óregla kemur upp á fundi skal forseti gera hlé um stundarsakir eða ef nauðsyn krefur fresta eða slíta fundi. Ef áheyrandi á sveitarstjórnarfundi raskar fundarfriði getur forseti vísað honum úr fundarsal. Leyfi forseta þarf til að taka myndir í fundarsal bæjarstjórnar.
Ég leyfi mér einnig að benda á að aðrir sem hafa gegnt hlutverk formanns, hvort sem er í bæjarráði eða bæjarstjórn hafa látið það viðgangast að nefndarmenn hagi sér á óviðeigandi hátt á fundum, óáreitt og án áminningar.
Ef nefndarmaður lítillækkar með einhverjum hætti annan nefndarmann í skjóli þess að allir eru bundnir trúnaði um hvað fer fram á fundinum er það skýrt brot á þeim gildum sem Mosfellbær stendur fyrir, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja, og samþykktum Mosfellsbæjar. Það hlýtur að teljast stór þáttur í að þessum gildum sé fylgt að nefndarmaður og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins sýni fordæmi í hegðun og verki eða eins og segir í lokaskýrslu stefnumótunar fyrir Mosfellsbæ frá því í apríl 2008 þegar grunngildin voru tekin upp:
„Það er alveg ljóst að það skjal sem hér er kynnt hefur ekki mikla þýðingu nema að bæjaryfirvöld og bæjarbúar í Mosfellsbæ vinni áfram með þær áherslur sem settar eru fram.”
Allt síðasta kjörtímabil átti sér stað eineltishegðun í garð fulltrúa Íbúahreyfingarinnar af hálfu nefndarmans og annarra kjörinna fulltrúa sem sátu í bæjarstjórn og bæjarráði. Hún kristallast í því uppþoti sem varð eftir að fulltrúinn, sem sat fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar sem varamaður í bæjarstjórn og bæjarráði, á þessu kjörtímabili, sá sér ekki annað fært en að segja af sér vegna ljótra aðdróttana sem áttu sér stað á bæjarráðsfundi nr. 1311, þann 20. júní 2017. Að því sem ég best veit hefur aldrei borist afsökunarbeiðni til fulltrúans vegna þessa. Enn eru nefndarmenn að skemmta sér yfir þessari uppákomu fyrir bæjarstjórnarfundi í samræðum sín á milli.
Ég hef setið sem áhorfandi í bæjarstjórn og heyrt lítilslækkandi orðræðu sem á sér stað gagnvart fulltrúum Íbúahreyfingarinnar, hvort sem er á fyrsta kjörtímabili okkar í Íbúahreyfingunni eða því sem nú stendur yfir. Þetta er óheilbrigt starfsumhverfi fyrir alla og samkvæmt minni upplifun þá ríkir eineltismenning í garð fulltrúa Íbúahreyfingar sem er langt frá bæði því sem kemur fram í leiðbeiningum SÍS um hegðun sveitarstjórnarmanna og alls ekki í samræmi við hin háleitu markmið sem sett voru fyrir bæinn í stefnumótun 2008 með gildunum fjórum.
Eineltisthegðun þess sem valdið hefur og meðvirkni annara nefndarmanna sést á því að nefndarmenn taka þátt í að smætta, uppnefna eða með öðrum leiðum tala illa um, og til, fulltrúa Íbúahreyfingarinnar. Starfsmenn Mosfellbæjar og embættismenn fara ekki varhluta af þessu, en samkvæmt trúnaðarsamtölum við starfsmenn Mosfellsbæjar fá þeir ósjaldan að heyra frá umræddum nefndarmanni hversu óhæfir fulltrúar Íbúahreyfingarinnar séu til að gegna skyldum sínum.
Ég leyfi mér í ljósi þessa að vitna hér í skilgreiningu um einelti á vinnustað: Skilgreining:
„Þeir sem leggja aðra í einelti gera það yfirleitt af ásettu ráði. Um er að ræða andfélagslegt ofbeldi er birtist sem þrálát árátta, knúin af einbeittum vilja. Markmið gerandans er fyrst og fremst það að sýna völd sín með því að meiða, lítillækka og brjóta fórnarlömb sín á bak aftur”.
(sjá nánar: http://www.uttekturlausn.is/einelti-a-vinnustad.html )
Með bréfi þessu vil ég vekja athygli nefndarmanna á þeirri ósæmandi hegðun sem átti sér stað á fundi bæjarráðs nr. 1325 og að í framhaldi af bréfi þessu endurskoði nefndarmenn allir og rýni í hvernig samskipti séu á vettvangi bæjarráðs og bæjarstjórnar og breyti starfsháttum sínum til betri vegar. Við teljum okkur ekkert undanskilin í þeirri endurskoðun. Nú þegar samfélagið hefur á svo margan hátt brotist undan eineltishegðun er kominn tími til að skoða hana í stjórnmálamenningu bæjarfélagsins okkar. Ef sveitarstjórnin getur ekki farið á undan með góðu fordæmi er varla hægt að ætlast til þess að aðrir bæjarbúar beri virðingu fyrir gildum Mosfellsbæjar, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.
Virðingarfyllst,
Hildur Margrétardóttir
Formaður Íbúahreyfingarinnar
Álafoss, laugardagur 14. október 2017
Ummæli Stefáns Ómars Jónssonar fyrrum framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs í Mosfellsbæ í kjölfar birtingar bréfsins:
Í tilefni þessara skrifa.
Takk Hildur fyrir að deila þessari meintu óviðeigandi hegðun nafndarmanns með okkur.
Að upplifa það að vera beittur einelti er ekki eitthvað sem halda ber trúnað um,
heldur þvert á móti er það réttur þess sem finnst hann vera beittur einelti að
upplýsa um það ástand og krefjast þess að á því verði tekið.
Gildir þetta um alla vinnustaði þar með talinn vinnustaðinn “bæjarráð” þar
sem fulltrúar almennings koma saman til þess að ráða ráðum sínum eftir leikreglum lýðræðisins.
“Umræddur nefndarmaður”.
Allir þeir sem sitja nefndarfundi hvort heldur þeir eru
kjörnir fulltrúar eða embættismenn eins og t.d. bæjarstjórinn, sem hefur seturétt á fundum bæjarráðs, eru seldir undir almennar háttsemisreglur sem m.a. eru tryggðar í siðareglum, mannauðsstefnu og gildum Mosfellsbæjar um jákvæðni, virðingu, framsækni og umhyggju, en samkvæmt þessum reglum er einelti fráboðið.
Af fréttum má ráða að “umræddum nefndarmaður” sé sjálfur bæjarstórinn Haraldur Sverrisson. Það gerir málið enn alvarlegra þar sem bæjarstjórinn er embættismaður, fulltrúi og þjónn almennings sem hefur það hlutverk eitt að þjóna bæði bæjarbúum og kjörnum fulltrúum af alúð, auðmýkt og samviskusemi, en ekki vera neins konar valdboðandi eða drottnari á
fundum bæjarráðs, þar sem hann situr sem gestkomandi.
Stefán Ómar Jónsson
fyrrum framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs Mosfellsbæjar.
Frétt um málið á Visir.is
by admin42 | 27 Oct, 2017 | Fréttir
Samskipti í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafa lengi verið til umræðu meðal Mosfellinga. Tíðindin eru ekki ný. Íbúahreyfingin segir einfaldlega að nú sé komið nóg. Fólk þarf að bæta sig. Stjórnmálastarf á ekki að vera undanþegið þeim reglum sem almennt gilda um samskipti á vinnustað og það er atvinnurekandans, í þessu tilviki Mosfellbæjar, að sjá til þess að þær séu virtar. Um eðlilegan skoðanaágreining er ekki að ræða, heldur síendurtekna ofbeldisfulla framkomu með lítilsvirðandi líkamstjáningu, truflandi hegðun, uppnefningum, útúrsnúningum, persónulegum pillum og illu umtali.
Vanvirðingin við gildi bæjarins er augljós. Einkunnarorðin eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja, ásamt stefnu um heilsueflandi samfélag. Íbúahreyfingin kallar eftir því að bæjarstjórn virði þessar yfirlýsingar og fari fram með góðu fordæmi.
Fyrstu viðbrögð bæjarstjóra eru að halda því fram að tilgangurinn sé að koma höggi á pólitískan andstæðing. Fulltrúar Íbúahreyfingarinnar telja sig hins vegar vera að gefa fólki færi á að bæta sig og í þeim tilgangi óska fulltrúar hennar eftir úttekt vinnusálfræðings sem hlotið hefur viðurkenningu frá Vinnueftirltinu á samskiptum innan bæjarstjórnarinnar. Það að fulltrúar V- og S-lista skuli taka undir með bæjarstjóra lýsir best þeirra hlut í málinu. Þeirra afstaða var viðbúin og segir ekkert um réttmæli þess að Íbúahreyfingin skuli nú loksins óska eftir aðstoð vinnusálfræðings.
Á heimsíðu Vinnueftirlitsins segir:
“Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Markmiðið er að stuðla að öryggi og heilbrigði starfsfólks og koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar eða vinnuumhverfisins.
Mat á áhættu skal ná til allra þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi. Sérstaklega skal litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin.”
Skv. lögum um vinnuvernd er ábyrgð Mosfellsbæjar sem sagt skýr. Í 65. gr. a. segir: “Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi.”
Undir þessa grein heyrir síðan Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Í 3. gr. segir:
“Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.”
Fólk sem tekur þátt í stjórnmálum veit að starfinu fylgir mikið álag. Það er ekki á það bætandi. Skoðanaágreiningur á að snúast um málefni, annað ekki. Það hvort tillagan sé raunhæf eða óraunhæf; hvort bæjarsjóður hafi fjárhagslegt bolmagn; hvort hún þjóni hagsmunum íbúa o.s.frv., o.s.frv.
Stjórnmálamenning sem snýst um allt annað en málefni skaðar okkar dýrmæta lýðræði. Fólk fær skömm á pólitík og treystir sér ekki til að blanda sér í hana. Því þarf að breyta og það er hlutverk þeirra sem starfa á þessum vettvangi að gera það. Íbúahreyfingin er tilbúin í það verkefni.
Úr fundargerð bæjarráðs 26. október 2017.
“1. 201710167 – Erindi Hildar Margrétardóttur um 1325. fund bæjarráðs
Erindi á dagskrá að beiðni fulltrúa Íbúahreyfingarinnar.
Hildur Margrétardóttir (HMa), varabæjarfulltrúi M-lista, mætti á fundinn undir þessum lið. Jafnframt var viðstödd Hanna Guðlaugsdóttir, mannauðsstjóri. Hildur vék af fundi kl. 7:39.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að fenginn verði vinnusálfræðingur sem hlotið hefur viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til að gera úttekt á samskiptum fulltrúa í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Honum verði einnig falið að gera áætlun um úrbætur.
Tillagan er felld með þremur atkvæðum.
Bókun V-, D og S- lista
Átölur Íbúahreyfingarinnar vegna þess að formaður bæjarráðs veitti fundarmanni ekki áminningu á bæjarráðsfundi 12. október sl.eru innistæðulausar og er þeim vísað á bug. Við áréttum einnig á að ásakanir um einelti eru grafalvarlegar en því miður er oft illa farið með þetta mikilvæga hugtak í íslensku samfélagi.
Bókun M – lista Íbúahreyfingarinnar
Ástæðan fyrir tillögu Íbúahreyfingarinnar er að framkoma meirihlutans í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur lengi borið öll einkenni eineltis en í reglugerð er það skilgreint svo:
“Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.“
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376
Ummæli af Facebook
María Grétarsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ segir þetta í tilefni af fréttinni í Fréttablaðinu:
“Ég varð vitni af þessu einelti af hálfu meirihlutans í Mosfellsbæ í þinn garð á fundi, á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, á Kjalarnesi fyrir um þremur árum síðan. Ég man líka að Bryndís Haraldsdóttir dró sig úr hópnum sem hegðaði sér á sama hátt og hér er líst og hlustaði gaumgæfilega á erindi þitt sem þú fékkst síðan samþykkt á fundi sömu aðila ári síðar í Kópavogi.”
Frétt um málið á Vísir.is
by admin42 | 14 Sep, 2017 | Fréttir
Þríeykið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, fulltrúar D-, S- og V-lista, ákváð í morgun á 1320. fundi bæjarráðs að aðhafast ekkert í máli varabæjarfulltrúans Jóns Jósefs Bjarnasonar og hafnaði tillögu M-lista Íbúahreyfingarinnar um aðgerðir í þeim tilgangi að finna lausn á vandanum.
Tildrög málsins eru þau að Jón Jósef Bjarnason sagði af sér embætti varabæjarfulltrúa með yfirlýsingum sem hann gaf í Mosfellingi (víðlesnasta fréttablaði í Mosfellsbæ sem sveitarfélagið sjálft notar til að koma á framfæri upplýsingum til íbúa) þann 29. júní sl. og á sömuleiðis víðlesnustu samskiptasíðu Mosfellinga, Íbúar í Mosfellsbæ á FB þann 10. júlí. Frá þeim tímapunkti hefur varabæjarfulltrúinn ekki sinnt fundarboðum sem staðfestir að hann er hættur.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um að bæjarráð/bæjarstjórn aðhafist í máli varabæjarfulltrúa – 1320. fundur bæjarráðs 14. september 2017
Skv. áliti bæjarlögmanns getur bæjarstjórn Mosfellsbæjar ekki tekið mark á opinberum yfirlýsingum varabæjarfulltrúans Jóns Jósefs Bjarnasonar um afsögn. Sú niðurstaða leiðir af sér að hann heldur áfram að hirða laun úr bæjarsjóði þrátt fyrir að sinna ekki skyldum sínum sem varabæjarfulltrúi. Hún þýðir einnig að kjósendur og M-listi eru sviptir þeim lýðræðislega rétti, sem sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir, að tilnefna starfandi varabæjarfulltrúa.
Að mati M-lista verður við svofellt ástand ekki unað og gerir bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar því að tillögu sinni að bæjarráð og bæjarstjórn aðhafist í þessu máli með því að senda varabæjarfulltrúa ábyrgðarbréf þar sem vísað er í opinberar yfirlýsingar hans um afsögn og hann beðinn að staðfesta hana eða bera til baka innan tilgreindra tímamarka. Geri hann ekki annað hvort muni bæjarstjórn líta svo á að fyrrgreindar opinberar tilkynningar feli í sér afsögn hans af þeim ástæðum sem þar eru tilgreindar, þ.e. af persónulegum ástæðum, enda hafi hann ekki sinnt fundarboðum síðan þær birtust.
Bókun D-, S- og V-lista
Bæjarráð hefur þegar aðhafst í málinu með því að fjalla um það á fundum sínum. Fyrir liggur minnisblað bæjarlögmanns þar sem fram kemur að á meðan umræddur varabæjarfulltrúi hefur ekki beint formlegu erindi til bæjarstjórnar þar sem hann óskar eftir því að fá lausn frá störfum, og ekki liggur fyrir að hann hafi misst kjörgengi, er bæjarstjórn ekki heimilt að veita umræddum varabæjarfulltrúa lausn frá störfum.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar harmar að bæjarráð skuli ekki sjá ástæðu til að leiða þetta mál til lykta. Sveitarfélagið greiðir Jóni Jósef laun sem varabæjarfulltrúi þrátt fyrir að hann hafi sagt sig opinberlega frá því starfi. Bæjarráð fer með fjármálastjórn bæjarins, auk þess að hafa lögbundið eftirlit með henni og á þess ábyrgð að sjá til þess að fjármunum bæjarbúa sé vel varið. Með aðgerðarleysi sínu bregst ráðið því hlutverki sínu og sviptir M-lista um leið þeim rétti að hafa starfandi varabæjarfulltrúa.
Það er ekkert í sveitarstjórnarlögum sem segir til um að varabæjarfulltrúar skuli senda bæjarstjórn formlegt erindi um afsögn. Jón Jósef sagði af sér með sannanlegum hætti og hefur ekki sinnt fundarboðum sem er staðfesting á afsögn hans. Íbúahreyfingin telur það vera næga ástæðu til að bæjarráð og bæjarstjórn aðhafist í málinu með þeim hætti sem tillaga Íbúahreyfingarinnar segir til um.
Tillaga Íbúahreyfingarinnar á 1319. fundi bæjarráðs 31. ágúst 2017
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar óskar eftir því við bæjarráð að það leggi til við bæjarstjórn að taka til afgreiðslu afsögn Jóns Jósefs Bjarnasonar sem varabæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar, þrátt fyrir að formlegt erindi hans til bæjarstjórnar þess efnis liggi ekki fyrir.
Sú óvenjulega staða er uppi að Jón Jósef hefur í tvígang lýst því yfir opinberlega í sumar að hann sé hættur sem varabæjarfulltrúi. Fyrri yfirlýsinguna birti hann þann 29. júní sl. sem Opið bréf til Mosfellinga í bæjarblaðinu Mosfellingi og þá síðari þann 10. júlí sem Opið bréf til bæjarstjórnar á samskiptasíðunni Íbúar í Mosfellsbæ á FB.
Sterk rök hníga að því að bæjarstjórn eigi að taka afsögnina til afgreiðslu. Tímaritið Mosfellingur er borið í öll hús í Mosfellsbæ og bærinn sjálfur notar þann vettvang til að koma öllum mikilvægum upplýsingum á framfæri við íbúa sína. Ljóst er á því að Mosfellsbær treystir því að efni blaðsins skili sér til íbúa.
Hin rökin eru að Opið bréf Jóns Jósefs til bæjarstjórnar birtist á samskiptasíðu sem mikill fjöldi bæjarbúa skiptist á skoðunum og upplýsingum á. Síðunni er haldið úti af íbúum og telur hún hátt i fjögur þúsund vini í tíuþúsund íbúa bæjarfélagi. Það má því færa rök fyrir því að yfirlýsingar hans hafi hlotið einhverja bestu dreifingu sem völ er á í Mosfellsbæ.
En það eru ekki einungis yfirlýsingar Jóns Jósefs sem gefa til kynna að hann sé hættur störfum sem varabæjarfulltrúi, heldur líka að í tvígang hefur hann ekki sinnt boðum bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar á fundi.
Það fer ekki á milli mála að Jón Jósef er hættur störfum. Hann þiggur samt laun úr bæjarsjóði sem varabæjarfulltrúi. Íbúahreyfingin efast um að það sé eðlileg meðferð sveitarfélags á skattfé að greiða einstaklingi laun sem varabæjarfulltrúa eftir að sá hinn sami hefur í tvígang lýst því yfir opinberlega að hann segi af sér og sýni jafnoft í verki að hann sé hættur með því að sinna ekki fundarboðunum, þ.e. mæta ekki á fundi þrátt fyrir boðun. Þetta tvennt saman, yfirlýsing í víðlesnasta tímariti í Mosfellsbæ og fjarvera á fundum ætti að mati Íbúahreyfingarinnar að teljast næg ástæða til að taka afsögn hans til formlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.
Eins hlýtur það að vera ábyrgðarhlutur af hálfu bæjarstjórnar að greiða Jóni Jósef laun. Greiðslur úr bæjarsjóði til einstaklings sem de facto er ekki lengur varabæjarfulltrúi verða að teljast mjög óeðlilegar, auk þess sem sú staða að taka ekki mark á afsögn hans kemur beinlínis í veg fyrir að lýðræðislega kjörinn fulltrúi sem ætti að taka hans sæti geti tekið við keflinu.
Íbúahreyfingin telur að bæjarstjórn geti skapað sér ábyrgð með því að hundsa opinberar tilkynningar varabæjarfulltrúans um afsögn og framangreindri meðferð á skattfé sveitarfélagsins.
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376
Fundargerð bæjarráðs 14. september 2017
by admin42 | 17 Aug, 2017 | Fréttir
Nú eru ný hverfi óðum að rísa í Mosfellsbæ og íbúum að fjölga samhliða því. Skuggi fellur þó á gleðina því engir strætisvagnar eru á næsta leiti í hverfinu undir Helgafelli, í Leirvogstungu og víðar. Þótt uppbygging hverfanna sé vel á veg komin hafa enn engar áætlanir verið gerðar um framtíðarfyrirkomulag almenningssamgangna. Ef faglega hefði verið að málum staðið hefðu þær auðvitað átt að vera hluti af upphaflegri skipulagsvinnu og liggja fyrir hvernig sveitarfélagið ætlaði sér að standa að þeim þegar byrjað var að byggja . Aðalskipulag Mosfellsbæjar og vefur sveitarfélagsins eru til vitnis um að stefnumótun á sviði almenningssamgangna er ekki forgangsatriði í Mosfellsbæ, heldur miklu frekar eitthvað sem bara gerist ef yfirhöfuð.
Á samskiptamiðlum hefur íbúum verið heitt í hamsi út af þessu hallæri og er nú svo komið að bæjarráð hefur samþykkt þá tillögu skipulagsnefndar að skoða þessi mál.
Þess má geta að á síðasta kjörtímabili lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar til í skipulagsnefnd að óskað yrði eftir því við bæjarstjórn að hún fengi fagaðilann Strætó bs. til að leggja drög að leiðakerfi og kostnaðargreina það verkefni að koma á strætisvagnasamgöngum innanbæjar í Mosfellsbæ. Tlllagan var samþykkt en engin alvarleg tilraun gerð til að komast til botns í því máli. Óánægja íbúa og söluaðila fasteigna hefur nú orðið til þess að áhugi fulltrúa D- og V-lista virðist eitthvað vera að glæðast og er það vel.
Í dag er brýnast að tengja nýju hverfin við þá strætisvagna sem ganga í Mosfellsbæ. Safnvagnakerfi innanbæjar með tengingu við borgarlínu er þó framtíðin og mikilvægt að hefja strax vinnu við almenningssamgönguáætlun þar að lútandi samhliða því að finna lausn á vandanum nú.
Sjá fundargerð bæjarráðs mál 4, 17. ágúst 2017.