Íbúahreyfingin sendir erindi til Persónuverndar – Fréttatilkynning

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hefur beðið um álit Persónuverndar á gildissviði persónuverndarlaga hvað varðar upplýsingar um afskriftir á lögboðnum gjöldum lögaðila til sveitarfélags og hvort að birting á slíkum upplýsingum falli undir persónuverndarlög.
Undanfari málsins er sá að þann mars á þessu ári bæjarráð og bæjarstjórn afskriftir á gjöldum til sveitarfélagsins. Íbúahreyfingin lagði þá til að „allar upplýsingar um afskrifaðar skuldir lögaðila verði birtar opinberlega ásamt ástæðum fyrir því hvers vegna ekki sé talið mögulegt að innheimta kröfuna. Einnig, að allar upplýsingar um afskrifaðar skuldir einstaklinga þar sem félagslegar aðstæður eru ekki ástæða afskrifta séu birtar opinberlega.“
Ákveðið var að fela framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs að skrifa umsögn um tillöguna sem síðan færi til bæjarráðs.
Íbúahreyfingin grennslaðist fyrir um afdrif tillögunnar í maí og ágúst en fékk engin svör og ákvað í september að birta upplýsingar um afskriftir til lögaðila í dreifiriti sem borðið var í öll hús í Mosfellsbæ.
Eftir nokkuð skrautlega stjórnsýslumeðferð á málinu var samþykkt með 6 af 7 atkvæðum í bæjarstjórn að „fram fari lögfræðileg skoðun á því hvort brotið hafi verið gegn reglum Mosfellsbæjar um meðferð mála, ákvæðum sveitarstjórnarlaga og ákvæðum annarra laga sem kveða á um vernd persónuupplýsinga þegar Íbúahreyfingin birti upplýsingar um afskriftir til lögaðila í Mosfellsbæ í dreifibréfi til íbúa Mosfellsbæjar í september sl.“
18. október 2011 barst svo lögfræðiálit LEX unnið af Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Víði Smára Petersen þar sem niðurstaðan er eftirfarandi:
„- Upplýsingar um afskriftir lögaðila hjá sveitarfélögum heyra undir þagnarskyldu sveitarstjórnarmanna. Óheimilt var því fyrir sveitarstjórnarmann að birta upplýsingarnar opinberlega.
– Birting umræddra upplýsinga var ekki í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
– Brot sveitarstjórnarmanns gegn þagnarskyldu sinni er refsiverður verknaður, skv. 136. gr. hgl. eða 230. gr. hgl. Rétt væri að Mosfellsbær upplýsti innanríkisráðherra um háttsemi umrædds sveitarstjórnarmanns og jafnvel sendi erindi til ríkissaksóknara.
– Brot á lögum nr. 77/2000 geta varðað sektum, fangelsi eða skaðabótaábyrgð. Mosfellsbær ber aftur á móti ekki ábyrgð á umræddu broti heldur aðeins sá sem birti upplýsingarnar.
– Mosfellsbær gæti þó borið almenna skaðabótaábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð ef einhver umræddra lögaðila hefur orðið fyrir tjóni vegna birtingarinnar. Ýmis sjónarmið mæla þó gegn því að reglan um vinnuveitandaábyrgð eigi við.
– Mosfellsbæ er óheimilt að birta upplýsingar um afskriftir lögaðila og einstaklinga hjá sveitarfélaginu, án samþykkis viðkomandi aðila.“

Í áliti LEX er komist að þeirri niðurstöðu að birtingin sé brot á persónuverndarlögum en Íbúahreyfingin telur þá túlkun á lögunum vægast sagt umdeilanlega þar sem skýr greinarmunur er gerður í íslenskum lögum á persónu og lögaðila.
Íbúahreyfingin ákvað því að biðja Persónuvernd um álit á gildissviði persónuverndarlaga með tilliti til upplýsinganna sem Íbúahreyfingin birti.
Fyrirspurnin til Persónuverndar er hér að neðan og lögfræðiálit LEX, blað Íbúahreyfingarinnar og blað yfir feril málsins fylgir í viðhengi. Einnig bendum við á greinar um málið á bloggi Íbúahreyfingarinnar http:ibuahreyfingin.is og bloggi Þórðar Björns Sigurðssonar http://blog.eyjan.is/tbs/.

F.h. Íbúahreyfingarinnar
Jón Jósef Bjarnason
GSM: 897-9858

“Ágæti viðtakandi.

Í september síðastliðnum birti Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ lista með upplýsingum um afskriftir Mosfellsbæjar á skuldum lögaðila, sem fylgir hér í viðhengi. Til að gera langa sögu stutta var meirihluti bæjarstjórnar ósáttur við birtingu upplýsinganna og pantaði lögfræðiálit sem barst þann 18. október.
Í beiðni bæjarstjórnar um álitið er m.a. beðið um álit með tilliti til „laga sem kveðja á um vernd persónuupplýsinga“ þrátt fyrir að Íbúahreyfingin telji sig alls ekki hafa birt neinar persónuupplýsingar. Hér er bókun bæjarstjórnar:
„Bæjarstjórn óskar eftir því við lögmenn bæjarins að fram fari lögfræðileg skoðun á því hvort brotið hafi verið gegn reglum Mosfellsbæjar um meðferð mála, ákvæðum sveitarstjórnarlaga og ákvæðum annarra laga sem kveða á um vernd persónuupplýsinga þegar Íbúahreyfingin birti upplýsingar um afskriftir til lögaðila í Mosfellsbæ í dreifibréfi til íbúa Mosfellsbæjar í september sl.”
Í álitinu, sem fylgir í viðhengi, er komist svo að þeirri niðurstöðu m.a. að brotið hafi verið gegn persónuverndarlögum með birtingunni.
„Birting umræddra upplýsinga var ekki í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.“
Sá kafli álitsins sem leiðir til þessarar niðurstöðu er eftirfarandi kafli:
“Fjárhagsupplýsingar um einstaklinga og lögaðila fela í sér persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (prl.), sbr. 1. tölul. 2. gr. og 3. mgr. 6. gr. laganna. Dreifing slíkra persónuupplýsinga í formi opinberrar birtingar felur ótvírætt í sér vinnslu þeirra í skilningi 2. tölul. 2. gr. prl., sbr. dóm Hæstaréttar frá 6. desember 2007 í máli nr. 201/2007.
Veiting og vinnsla slíkra persónuupplýsinga er almennt bönnuð nema með leyfi þess sem í hlut á, sbr. 7. tölul. 2. gr. prl., eða ef sá sem birtir upplýsingarnar hefur heimild til þess samkvæmt 8. gr. laganna. Ekki verður séð að þessi skilyrði hafi verið uppfyllt í málinu. Í það minnsta er ljóst að birting svo ítarlegra og sérgreindra fjárhagsupplýsinga lögaðila var ekki í samræmi við þau meðalhófssjónarmið sem lögfest eru í 7. gr. prl.
Loks má geta þess að sérstakt starfsleyfi þarf til þess að miðla upplýsingum til þriðja aðila um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust sem sett var með stoð í 2. mgr. 45. gr. prl.
Af þeim sökum er ljóst að opinber birting um afskriftir skulda lögaðila, án þeirra leyfis, felur í sér brot gegn fyrrgreindum ákvæðum prl.”
Höfundar álitsins telja sem sagt að Íbúahreyfingin hafi, í fyrsta lagi gerst brotleg við 3. mgr. 6. gr., 7. gr. og 2. gr. laganna með því að birta upplýsingarnar og einnig er bent á brot á eftirfarandi greinum persónuverndarlaga:
“Heimilt er þeim að kvarta til Persónuverndar sem telur að ekki hafi verið unnið með persónuupplýsingar hans í samræmi við prl., sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Sveitarstjórn Mosfellsbæjar yrði ekki heimilt að kvarta til Persónuverndar í þessu máli, enda hefur hún ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
Ákveði einhver þeirra lögaðila sem birtar voru upplýsingar um að kvarta til Persónuverndar getur ábyrgðaraðili þurft að bæta þeim sem misgert var við það fjárhagslega tjón sem hann hefur orðið fyrir af þeim völdum, sbr. 43. gr. prl. Umræddur ábyrgðaraðili gæti einnig þurft að lúta fésektum eða fangelsi allt að þremur árum, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna.”
Við viljum því biðja um álit Persónuverndar á gildissviði laganna hvað varðar upplýsingar um afskriftir á lögboðnum gjöldum lögaðila til sveitarfélags og hvort að birting á slíkum upplýsingum falli undir persónuverndarlög.

Jón Jósef Bjarnason
GSM: 897-9858
Netfang: jonb@it-cons.com”

Hér má sjá feril málsins í stjórnsýlsunni, lögfræðiálit LEX og blað Íbúahreyfingarinnar þar sem upplýsingarnar um afskriftirnar voru birtar:
Blad_IbuahrSept11
Mosfellsbær – Minnisblað um brot á trúnaðarskyldu
Ferli birtingarmálsins

Eru fyrirtæki persónur?

Í mars 2011 tók bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákvörðun um afskrift viðskiptakrafna í samræmi við tillögu fjármálastjóra.

Við afgreiðslu málsins lagði Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, til að allar upplýsingar um afskrifaðar skuldir lögaðila yrðu birtar opinberlega ásamt ástæðum fyrir því hvers vegna ekki sé talið mögulegt að innheimta kröfuna. Einnig, að allar upplýsingar um afskrifaðar skuldir einstaklinga, þar sem félagslegar aðstæður eru ekki ástæða afskrifta, séu birtar opinberlega. Þá lagði Jón Jósef til að fjöldi einstaklinga og heildarupphæð krafna þeirra sem fá niðurfelldar kröfur vegna félagslegra aðstæðna yrðu birtar opinberlega ásamt helstu félagslegum ástæðum sem valda því að afskrifa þarf kröfurnar, að því gefnu að birtingin brjóti ekki í bága við lög.

Ekki var fallist á tillögu Jóns Jósefs heldur tók bæjarstjórn þá ákvörðun að óska eftir umsögn framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs um tillöguna. Þar sem nokkur dráttur varð á því að umbeðin umsögn bærist hafði Jón Jósef samband við bæjarskrifstofur í tvígang til að grennslast fyrir um afdrif málsins. Fyrst í maí 2011 og aftur í ágúst.

Um miðjan september hafði umrædd umsögn ekki enn verið lögð fram. Því tók Jón Jósef ákvörðun um að birta upplýsingar um afskriftir einstaka lögaðila og samandregnar upplýsingar um afskriftir einstaklinga í greininni Af starfsemi Íbúahreyfingarinnar sem birt var fréttablaði Íbúahreyfingarinnar. Blaðinu var dreift í öll hús í Mosfellsbæ. Í greininni segir:

Niðurfelldar kröfur lögaðila: Íbúahreyfingin hefur beðið í 6 mánuði eftir rökstuðningi fyrir því að listinn yfir þessa aðila sé ekki birtur. Nú bíðum við ekki lengur, listann má sjá hér að neðan:

Listi yfir afskriftir hjá lögaðilum

Auk þess var afskrifað hjá 29 einstaklingum, samtals 935.402 kr. Þar af 485.189 vegna hitaveitu að tillögu OR, 214.992 vegna leikskólagjalda, 177.790 vegna mötuneytis/frístundar grunnskóla, 28.125 vegna hundaeftirlitsgjalds. Svo eitthvað sé nefnt.

Birting ofangreindra upplýsinga vakti hörð viðbrögð bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Í kjölfar birtingarinnar var tekin ákvörðun um að óska eftir því við lögmenn bæjarins að fram færi lögfræðileg skoðun á því hvort að með birtingunni hafi verið brotið gegn reglum Mosfellsbæjar um meðferð mála, ákvæðum sveitarstjórnarlaga og ákvæðum annarra laga sem kveða á um vernd persónuupplýsinga.

Eftir að minnisblað lögmanna bæjarins barst var tekin ákvörðun um að upplýsa innanríkisráðuneytið um málið og óska jafnframt leiðsagnar ráðuneytisins um framhald þess, meðal annars á grundvelli þess að birting umræddra upplýsinga hafi ekki verið í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í lögunum er hugtakið persónuupplýsingar skilgreint svo:

Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.

Þegar þær upplýsingar sem birtar voru í fréttablaði Íbúahreyfingarinnar eru teknar til skoðunar kemur í ljós að ekki er hægt að rekja þær beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Aftur á móti má rekja þær til tiltekinna fyrirtækja, sem varla eru persónur. Því væri forvitnilegt að lesa um hvernig lögmenn Mosfellsbæjar komast að sinni niðurstöðu. En þá þyrfti bærinn vitaskuld að birta minnisblaðið.

Af fenginni reynslu geri ég þó ekki ráð fyrir því að Mosfellsbær hafi frumkvæði að birtingu minnisblaðsins. Ég afréð því að skrifa bæjarstjóra tölvupóst og óskaði eftir afriti af minnisblaðinu til opinberrar birtingar.

Þórður Björn Sigurðsson

Greinin birtist á bloggi Þórðar, http://blog.eyjan.is/tbs/, 11.11.2011.

Af hverju nennir fólk ekki að mæta á fundi?

Ég var að koma af opnum fundi um drög að lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Þar sem ég komst ekki á mælendaskrá á fundinum ætla ég að senda lýðræðisnefndinni bréf með nokkrum hugmyndum um lýðræðisvæðingu og deila því með ykkur þar sem lýðræðið varðar okkur öll.
Í fyrsta lagi er ég mjög hugsi yfir þessu fundarformi sem boðið var upp á á fundi nefndarinnar.
Fyrst var kynning á drögum að lýðræðisstefnunni, sem var í sjálfu sér nauðsynleg en síðan tók við hið sígilda atriði: „Fyrirspurnir úr sal“.
Því má skjóta inn í að fundarstjóri var framkvæmdastjóri bæjarins, en hann var ekki valinn af fundarmönnum. Kannski væri lýðræðislegra að fundarmenn veldu sér sjálfir fundarstjóra?
Í pallborði sat svo lýðræðisnefndin sem eingöngu er skipuð fólki úr bæjarstjórn, bæjarstjórinn sjálfur formaður. Það gæti verið ferskara að fá inn í svona nefnd aðila sem ekki eru beint tengdir stjórnmálaflokkunum, sem flestir eru einmitt í mikilli lýðræðiskrísu um þessar mundir? Það er allavega ljóst að lýðræðisnefnd á vegum sveitarfélags án þátttöku íbúa væri óhugsandi á öðrum Norðurlöndum.
En svo að ég snúi mér aftur að „fyrirspurnum úr sal“. Þær fara þannig fram að þær fáu hræður sem nenna að mæta á svona fundi, flestar flokksbundnar, fá að bera upp spurningar við fyrirmennin í pallborði.
Nú ber fundarmaður upp spurningu. Ef við erum heppin þá er það málefnaleg spurning sem leiðir umræðuna áfram. Ef við erum óheppin þá er það einhver tengdur meirihlutanum að taka upp fundartíma og hrósa samstarfsfélögunum fyrir góða og mikla vinnu. Síðan fá allir í pallborði að bregðast við spurningunni, eins lengi og þeir vilja.
Athugið að fólk í sal þarf að bera fram spurningu til pallborðsins. Það er ekki leyfilegt að standa upp og tjá sig án þess að pallborð fái að taka annan hring. Með þessu móti tókst að koma örfáum spurningum að á fundi nefndarinnar á meðan formaður og aðrir í nefndinni notuðu um 90% fundartímans.
Ég reyndi ítrekað að blanda mér í umræðuna en bláu hendurnar virtust mun lunknari við að ná sambandi við fundarstjórann þannig að ég komst ekki að. Né konurnar sem sátu mér til beggja handa.
Borgararnir virðast algjört aukaatriði á svona fundum og við, þessar fáu hræður sem erum ekki í golfi, að græða eða að grilla, heldur mætum og tjáum okkur á svona fundum erum litnar hornauga. Orðið „frekjudós“ heyrist hvíslað úr flokksráðshorninu.
Ég er ekki viss um að ég nenni að mæta á svona fund aftur. Þetta er dautt form. Það gengur út á það að valdhafar reyna að missa ekki valdið á „orðinu“ til frekjulýðsins sem er ekki nógu „jákvæður“.
Mér heyrðist reyndar að lýðræðisnefndin hefði mestar áhyggjur af því að einhverjir yrðu dónalegir ef þeir fengju að tjá sig óhamið á netinu. Sennilega hefur nefndin ekki fengið góða ráðgjöf um netmiðla og samskiptaform. Það er hægt að gera margt til að losna við ómálefnalega umræðu á netinu annað en að loka samskiptavefjum, eða að loka á samskipti á samskiptavefjum. Á Facebook er t.d. ágætt kerfi þar sem notendur sjálfir velja þá frá sem ekki kunna mannasiði.
En ástæða þess að ég var að rembast við að rétta upp hönd á fundinum var sú að í síðustu viku fór ég á ráðstefnu um íbúalýðræði á vegum innanríkisráðuneytisins. Ekki sá ég neinn úr lýðræðisnefnd þar, né bláu hendurnar. Þar kom margt nýtilegt fram fyrir þá sem eru að vinna að lýðræðisúrbótum. T.d. var Gunnar Grímsson með kynningu á kerfi sem hann og félagar hans hafa hannað til að auðvelda aðkomu íbúa að þeim málum sem eru til umfjöllunar í stjórnkerfinu. Hér er krækja á glærurnar hans Gunnars. En eins og sjá má í glærunum kom Gunnar að þróun Skuggaþings og Skuggaborgar. Á næstunni er svo væntanlegur endurbættur og notendavænn vefur til að auðvelda borgurunum þátttöku.
Einnig talaði á ráðstefnunni Bruno Kaufmann, formaður samtakanna Initiative and Referendum Institute Europe. Kaufmann er Svisslendingur en þeir eru sú þjóð sem hvað mesta reynslu hefur af málefnakosningum. Hann sagði meðal annars frá því að í Sviss gæti fólk nú bæði sent atkvæði sín með tölvupósti eða sms-skilaboðum.
Umræður á fundinum snérust að miklu leyti um hvað lýðræðisvæðingin væri tæknilega flókin. Við þurfum hins vegar ekkert að finna upp hjólið í Mosfellsbæ. Út um allt land og alla Evrópu er grasrótin að þróa hugmyndir og tækni til að auðvelda aðkomu borgaranna að þátttöku í lýðræðisferlum. Lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar virðist hins vegar hafa látið nægja að fara í heimsókn í Garðabæinn.
Ég fór út af fundinum með þá sterku tilfinningu að tæknivandamálin væru hlægileg miðað við óttann sem ég skynjaði við það að valdaelítur þurfi að deila valdinu með almenningi. Ég hef líka á tilfinningunni að þessi fundur hafi, eins og svo margir fundir á undan honum, ekki verið haldinn til að skiptast á hugmyndum heldur til að setja strik í kladdann: Við héldum íbúafund. Tékk.
Svo er hægt að telja hann upp á listanum fyrir næstu kosningar.
Hvað gerðum við í lýðræðismálum á kjörtímabilinu?
Við héldum fund.

Kristín I. Pálsdóttir

Greinin birtist á vefritinu Smugunni, www.smugan.is, 22. september 2011

Fjöldi bæjarfulltrúa

Ein leið til að efla lýðræði á sveitarstjórnarstigi er að fjölga bæjarfulltrúum. Við það eykst þátttaka íbúa í mótun nærumhverfisins og starf nefnda bæjarfélagsins styrkist.
Á Íslandi hafa sveitarstjórnir lengi verið fámennar þar sem meðalfjöldi bæjarfulltrúa er 6,6. Á öðrum Norðurlöndum eru fulltrúar að meðaltali mun fleiri, eða 25,7 í Danmörku og allt að 44 í Svíþjóð. Sveitarfélög á Norðurlöndum eru reyndar með fleiri verkefni á sinni könnu en á Íslandi en þessi sláandi munur skýrist þó ekki af því. Munurinn skýrist heldur ekki af íbúafjölda innan sveitafélaganna þar sem t.d. sveitarfélög með innan við 500 íbúa í Noregi eru með 11 – 15 bæjarfulltrúa.
Mosfellsbær er sjöunda stærsta sveitarfélagið á Íslandi og er með 7 bæjarfulltrúa og er Garðabær eina sveitarfélagið af svipaðri stærð með jafn fáa fulltrúa, eða leyfilegan lágmarksfjölda í sveitarfélagi af þessari stærð. Þegar íbúar Mosfellsbæjar verða 10.000 er skylt að fjölga bæjarfulltrúum í 11. Átta sveitarfélög með færri en 8.000 íbúa eru með 9 fulltrúa og eitt, Fljótsdalshérað, er með 11.
Sveitarfélögum á Íslandi hefur fækkað úr 124 í 76 frá árinu 1998. Samhliða þessari þróun hafa völdin færst á færri hendur. Árið 1998 voru kjörnir fulltrúar 756 en árið 2009 voru þeir komnir niður í 512 og hefur því fækkað um ríflega þriðjung á 11 árum.
Helstu rök fyrir því að halda sveitarstjórnum fámennum eru þau að það sé of dýrt að vera með fjölmennar sveitarstjórnir. Sjálfri finnst mér þau rök léttvæg. Ef velja á stjórnarfar samkvæmt kostnaðaráætlun einni saman lægi beint við að einræði væri besta stjórnarformið.
Sú staðreynd að sveitarstjórnarstigið er sérstaklega viðkvæmt fyrir spillingu er góð ástæða fyrir því að fjölga bæjarfulltrúum. Fámennar sveitarstjórnir hjálpa fjórflokknum að einoka valdið og gera sjálfstæðum íbúaframboðum, og öðrum sem vilja hafa áhrif á samfélagið, án þátttöku í stjórnmálaflokkum, erfiðara að komast til áhrifa. Þetta þýðir að sjónarmið færri íbúa eiga fulltrúa í stjórnkerfinu.
Nú eru konur um 40% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum og væri spennandi að sjá hvaða áhrif fjölgun fulltrúa hefði á það hlutfall.
Lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar er nú að skila af sér tillögum. Þrátt fyrir að fjölgun fulltrúa í bæjarstjórn sé augljóslega kjörin leið til að efla lýðræðið, hefur ekki verið látið svo lítið að ræða það á fundum nefndarinnar, þrátt fyrir óskir fulltrúa Íbúahreyfingarinnar.
Flest mál sem sveitarstjórnir fjalla um eru í sjálfu sér ekki flokkspólitísk og fæst þeirra hafa snertifleti við stefnuskrár landsmálaflokka. Í Mosfellsbæ tíðkast að stjórnarmeirihlutinn virði skoðanir minnihlutans að vettugi og loki á gagnrýna umræðu. Lýðræðið byggist á skoðanaskiptum um þau mikilvægu málefni sem til umfjöllunar eru hverju sinni og því fleiri sjónarmið sem koma fram, því betra því stjórnsýslan á að sinna öllum íbúum. Til að svo megi verða þarf að fjölga fulltrúum.

Kristín I. Pálsdóttir

Blað og könnun um lýðræðisstefnu

Í dag, fimmtudaginn 15. september, og á morgun verður fyrsta blaði Íbúahreyfingarinnar dreift á öll heimili í Mosfellsbæ. Tilefni útgáfunnar er sú að nú liggja fyrir drög að lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar og Íbúahreyfingin vill hvetja Mosfellinga til að kynna sér drögin og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Íbúahreyfingin hefur einnig sett upp könnun til að fá viðbrögð íbúa við okkar áherslum varðandi íbúalýðræði en Íbúahreyfingin telur að drögin sýni ekki mikinn vilja til lýðræðisumbóta.
Við viljum líka nota tækifærið til að hvetja Mosfellinga til að fjölmenna á kynningarfund um drög að lýðræðisstefnu sem lýðræðisnefnd stendur fyrir. Fundurinn verður haldinn á Bókasafni Mosfellsbæjar, þriðjudaginn 20. september kl. 20.

Af starfsemi Íbúahreyfingarinnar

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hefur ekki setið með hendur í skauti fyrsta ár kjörtímabilsins, hún hefur beitt sér í nær öllum málum.

Fljótlega eftir kosningar þurfum við að beita okkur vegna misbeitingar valds. Sjálfstæðisflokkur og VG höfðu sent út pólitískan áróður í nafni Mosfellsbæjar. Í yfirlýsingu sem enn má sjá á www.mos.is er Mosfellsbær látinn túlka niðurstöðu kosninga með orðunum „Niðurstöður kosninganna eru skýr skilaboð um ánægju íbúa”. Hér er graf sem sýnir niðurstöður síðustu tveggja sveitarstjórnarkosninga í Mosfellsbæ, skilaboðin eru skýr. Mosfellingar eru alls ekki ánægðir:

M-listi fékk nær 9% atkvæða, auð og ógild atkvæði tvöfölduðust, og um þriðjungi fleiri kjósendur mættu ekki á kjörstað. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði nærri 5% fylgi og VG um 2%. Fólk þarf svo að athuga hvort það vilji áróður af þessum toga frá sínum flokki. Eitt er þó ljóst, Íbúahreyfingin situr ekki hjá þegar misbeiting valds er annars vegar og stjórnsýslan er notuð til að ljúga að íbúum.

Önnur mál sem Íbúahreyfingin hefur beitt sér fyrir:
Hljóðritun og birting á fundum bæjarstjórnar: Fyrst neitaði forseti bæjarstjórnar að leyfa hljóðritanir. Síðan var miklum kostnaði borið við en eftir að Íbúahreyfingin sýndi fram á lausn sem kostaði 3% af þeirri upphæð var byrjað að taka fundina upp. Hljóðritanirnar eru hins vegar hvergi heyranlegar á vef Mosfellsbæjar.
Hvers vegna vilja hinir flokkarnir ekki að íbúar geti hlustað á opna bæjarstjórnarfundi? Í mörgum sveitarfélögum er bæjarstjórnarfundum útvarpað, jafnvel sjónvarpað.

Gagnsæi fundargerða: Það skortir mjög mikið á að fundargerðir bæjarfélagsins gagnist bæjarbúum. Í mörgum tilfellum er beinlínis komið í veg fyrir að ljóst sé hvaða málefni voru til umræðu og engin merki eru um þær umræður sem fram fara á fundunum. Dæmi um vísvitandi villandi nöfn á dagskrárliðum eru óteljandi og kerfisbundin. Eina ástæðan virðist vera að villa um fyrir bæjarbúum.

Niðurfelldar kröfur lögaðila: Íbúahreyfingin hefur beðið í 6 mánuði eftir rökstuðningi fyrir því að listinn yfir þessa aðila sé ekki birtur. Nú bíðum við ekki lengur listann má sjá hér að neðan:

Auk þess var afskrifað hjá 29 einstaklingum samtals 935.402 kr. Þar af 485.189 vegna hitaveitu að tillögu OR, 214.992 vegna leikskólagjalda, 177.790 vegna mötuneytis/frístundar grunnskóla, 28.125 vegna hundaeftirlitsgjalds. Svo eitthvað sé nefnd.

Upplýsingaveita til íbúa: Við reynum vitaskuld að draga fram í dagsljósið upplýsingar sem bæjarbúar eiga fullan rétt á að vita en haldið er frá þeim með ýmsu móti. Það gengur seint. Oft tekur mánuði að fá upplýsingar sem bæjarfulltrúi á rétt á. Það tók til að mynda 4 mánuði að fá upplýsingar um laun og hlunnindi bæjarstjóra og það varð hreinlega allt vitlaust þegar við báðum um upplýsingar um laun og hlunnindi æðstu embættismanna.

Sjálfskuldarábyrgð fyrir einkafyrirtæki: Á síðasta kjörtímabili skrifaði bæjarráð undir ólöglega sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar fyrir einkafyrirtæki upp á kvartmilljarð. Við erum ekki í neinum vafa um að bæjarráðsmenn vissu að þetta væri ólöglegt og fórum því fram á að þeir segðu allir af sér. Innanríkisráðuneytið hefur tekið málið til nánari athugunar á grundvelli 1. mlg. 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Gagnsæi: Íbúahreyfingin hefur beitt sér fyrir gagnsæi allstaðar þar sem hægt er, í nefndum bæjarins, bæjarstjórn, bæjarráði, þingi Sambands Íslenskra Sveitarfélaga (en þar var Íbúahreyfingin ein með með mál fyrir þingið). Gömlu flokkarnir skipta á milli sín stjórnarsætum hjá sambandinu og þeir vilja engar breytingar í átt að auknu gagnsæi eða íbúalýðræði, fólk getur haft sína skoðun á því, en okkar skoðun er sú að þeir sem vilja leyna einhverju hafi einhverju að leyna og að ógagnsæi sé gróðrarstía spillingar.

Opinn hugbúnaður: Þá hefur Íbúahreyfingin ítrekað bent á að með innleiðingu opins hugbúnaðs megi spara tugi milljóna á ári og minnkað niðurskurð sem því nemur, en meirihlutinn hefur greinilega meiri áhuga á niðurskurði á þjónustu.

Atvinna: Íbúahreyfingin hefur komið með nokkrar atvinnuskapandi tillögur s.s. sleppitjörn, vatnaskíðabraut o.f.l. sem geta aukið tekjur sveitarfélagsins.

Íbúahreyfingin hefur ekki viljað veita Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga samningsumboð án fyrirvara á grundvelli laga sem brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar (t.d. Lög nr. 94/1986). Þau skilyrði sem Íbúahreyfingin vill setja fyrir samningsumboð eru:
• Að ekki verði samið við stéttarfélög um áframhaldandi beinar greiðslur til þeirra sem ekki komi fram á launaseðli launafólks. Hér er átt við allar greiðslur hverju nafni sem þær nefnast.
• Að mótframlag í lífeyrissjóði verði eftirleiðis tilgreint á launaseðlum launafólks.
• Að Samband íslenskra sveitarfélaga virði 74. grein stjórnarskrár og semji við þau félög sem óska eftir samningum en þröngvi launafólki ekki til þess að tilheyra ákveðnu félagi.
• Að ekki sé samið við stéttarfélög þar sem lýðræði og gagnsæi gagnvart launafólki er ekki virt, enda geta stjórnir slíkra félaga vart talist fulltrúar umbjóðenda sinna.
• Auk þess leggur bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að samninganefnd komi því inn í samninga að greiðslur í atvinnutryggingasjóð verði meðhöndlaðar á sama hátt og annar tekjuskattur á launþega á launaseðli launafólks í stað þess að fela skattheimtuna og gera launafólki ókleift að fylgjast með sköttum sínum, réttindum og öðrum greiðslum.

Jón Jósef Bjarnason

Pin It on Pinterest