by admin42 | 17 May, 2015 | Fréttir, Greinar
Fyrir meira en 30 árum fluttum við hjónin í Mosfellssveit eins og sveitarfélagið hét þá. Á þeim tíma gat maður fest kaup á húsnæði sem var talsvert ódýrara en í Reykjavík. Okkar börn ólust upp hér í bænum og fengu sína grunnskólamenntun í Varmárskóla. Þá var þetta eini skólinn á staðnum.
Ég hef alltaf unnið hér í bænum. Fyrst í leikskólanum Hlíð og sem stundakennari í Gagnfræðaskólanum eins og eldri deild Varmárskólans hét þá.
Ört vaxandi sveitarfélag varð að bæjarfélagi. Það hafði ekki undan við að skapa rými fyrir öll skólabörnin. Varmárskólinn var tvísetinn, kennsla bæði fyrir og eftir hádegi. Ég var þá þegar starfandi sem myndmenntakennari. Á þeim tíma þekkti ég ennþá öll börnin í bænum því ég kenndi þeim öllum í mínu fagi á yngra stigi. Svo var byggt við skólann sem var forsendan til þess að gera hann einsetinn. Mér þótti æðislegt að fá almennilega fagstofu fyrir myndmennt sem var ekki í kjallaranum. Góð birta og nægilegt rými. Því miður eru margar fagstofur ennþá í dag í kjallara sem telst ekki vera gott húsnæði.
Árið 2001 voru Gagnfræðaskólinn og Varmárskólinn sameinaðir í einn skóla og þar með varð til einn stærsti grunnskóli á landinu.
En bæjarfélagið stækkaði áfram eins og allar spár gerðu reyndar ráð fyrir. Útibú Varmárskólans á vestursvæði varð til. Og svo reis Lágafellsskólinn loksins sem sjálfstæður skóli. Krikaskólinn bættist við á sérstökum forsendum. En bæjarfélagið stækkar ennþá hratt og einhvernveginn virðumst við alltaf vera á eftir þróuninni í skólamálum. Bráðarbirgðarskúrar hafa skreytt Lágafellsskólann lengi vel og sama virðist í nánari framtíð vera upp á teningum í Varmárskóla.
Mér þykir vænt um þennan skóla þar sem ég er búin að vinna í meira en 20 ár. Þetta er vinalegur skóli með góðu starfsfólki og faglegri starfsemi þar innan veggja. Nemendafjöldin er kominn að vísu fyrir löngu upp fyrir það sem þykir æskilegast. Þetta gerir allt skipulag erfitt og álagið eykst bæði á starfsfólk og nemendur.
Mér þykir mjög vænt um þennan skóla þar sem börnin mín fengu góða menntun. Og mér sárnar hve lítið er áætlað í viðhald, bætur og rekstur í þennan skóla. Hann er orðinn rúmlega 50 ára og með meira en 700 nemendur í frekar þröngum húsakosti. Það segir sig sjálft að hann þarf á talsverðu fjármagni í endurbætur að halda. Ætli forgangsröðun sé ekki eitthvað skökk í fjárhagsáætlun bæjarins þar sem styrkir til gólfklúbbsins virðist vera hærra en það sem er áætlað til viðhalds í Varmárskóla?
Ekki er ennþá gert ráð fyrir öðrum varanlegum skóla miðsvæðis í Mosfellsbænum að svo stöddu. Ég leyfi mér að spyrja: Hvers vegna ekki? Eru bráðarbirgðarlausnir virkilega ódýrarar þegar upp er staðið? Er ekki tími kominn til að sinna skólamálunum í Mosfellsbænum betur en með einhverjum reddingum? Setjum skólamálin í fyrsta sæti!
Úrsúla Jünemann
by admin42 | 20 Jan, 2015 | Fréttir, Greinar
Íbúahreyfingin sendi nýverið stjórn Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu bréf þar sem þess er óskað að SSH endurskoði samþykktir sínar með tilliti til 50. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem þeim framboðum sem náð hafa inn manni í sveitarstjórn er gert kleift að tilnefna áheyrnarfulltrúa í nefndir og ráð sveitarfélaga. Kjarninn í tillögu Íbúahreyfingarinnar er […] ósk um að SSH innleiði samskonar ákvæði í sínar samþykktir þannig að öll framboð hafi jöfn tækifæri til að láta rödd sína heyrast og síðast en ekki síst jafnan aðgang að upplýsingum um þau málefni sem verið er að vinna að á vettvangi SSH.
Bréf til stjórnar Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Ég hef áhuga á að koma á framfæri tillögu um eilitlar breytingar á samstarfsvettvangi SSH. Tildrög málsins eru þau að ég er bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ og hafa fulltrúar hennar ekki kjörgengi á vettvangi fulltrúaráðs og nefnda á vegum samtakanna, þrátt fyrir að eiga fulltrúa í bæjarstjórn. Okkur þykir það miður þar sem um er að ræða samráðsvettvang um mikilvæg málefni þeirra sveitarstjórna sem aðild eiga að honum.
Tillagan tekur til breytinga á 6. gr. Samþykktar SSH sem gæti hljóðað svo.
Framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn en ná því ekki að fá kjörinn fulltrúa í fulltrúaráð SSH eiga rétt til að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til setu á fundum fulltrúaráðs með tillögurétt og málfrelsi.Það sama gildir um nefndir á vegum samtakanna.
Við gerð síðustu sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var, í þágu lýðræðis og til að efla þátttöku í sveitarstjórnarstarfi, innleidd ný grein þar sem kveðið er á um að framboð sem ekki hafa atkvæðamagn til að ná inn manni í nefnd á grundvelli hlutfallskosningar hafi engu að síður rétt á að tilnefna áheyrnarfulltrúa með tillögurétt og málfrelsi í öllum nefndum. Hér er um að ræða 50. gr. laganna og hljóðar það svo:
“50. gr. Áheyrnarfulltrúar.
Hafi sveitarstjórn verið kjörin bundinni hlutfallskosningu og einhver framboðsaðili sem fulltrúa á í sveitarstjórn nær ekki kjöri í byggðarráð er fulltrúum þessa aðila heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til þátttöku í fundum nefndarinnar. Hið sama á við um fastanefndir sem falið hefur verið fullnaðarákvörðunarvald í málum. Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að sama regla gildi um aðrar fastanefndir.”
Kjarninn í tillögu Íbúahreyfingarinnar er því ósk um að SSH innleiði samskonar ákvæði í sínar samþykktir þannig að öll framboð hafi jöfn tækifæri til að láta rödd sína heyrast og síðast en ekki síst jafnan aðgang að upplýsingum um þau málefni sem verið er að vinna að á vettvangi SSH.
Ljóst er að með tilkomu landshlutasamtaka sem þessara á sér stað framsal á því pólitíska umboði sem kjósendur í hverju sveitarfélagi fyrir sig hafa veitt kjörnum fulltrúum með atkvæði sínu. Með því að útiloka lítil framboð eins og Íbúahreyfinguna frá samstarfi sveitarfélaga á vettvangi SSH er því hið lýðræðislega umboð kjósenda rýrt og meirihlutaræði stærri framboða styrkt sem vart getur talist í anda þess jafnræðis sem boðað er nýjum sveitarstjórnarlögum. Það gefur auga leið að eftir því sem fleiri koma að samstarfi á vettvangi sveitarstjórnarmála eflist lýðræðið og því til mikils að vinna.
Fulltrúaráð og nefndir á vegum SSH er helsti samstarfsvettvangur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samtökin beinlínis stofnuð til að efla samskipti og samstarf sveitarstjórnarmanna. Að framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn skuli ekki eiga þar rödd hlýtur að orka tvímælis.
Skv. lauslegum útreikningum myndi áheyrnarfulltrúum í fulltrúaráði SSH fjölga um sjö en erfitt er segja nákvæmlega til um fjöldann þar sem upplýsingar um fjölda fulltrúa í nefndum og ráðum SSH vantar á sumar heimasíður bæjarfélaganna. Sama gildir um nefndirnar.
Það er álit Íbúahreyfingarinnar að samþykktin þarfnist endurskoðunar með hliðsjón af 50. gr. sveitarstjórnarlaga og að stefna beri að því að fulltrúum allra framboða sem eiga fulltrúa í sveitarstjórnum gefist færi á að taka þátt í störfum nefnda og ráða á vettvangi SSH.
Sigrún Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ
by admin42 | 8 Jan, 2015 | Fréttir, Greinar
Á samstöðufundi í Hörpu
Mosfellsbær hefur nú bæst í hóp þeirra sveitarfélaga sem ætla að kanna hvort hægt sé að bæta tónlistarskólanemendum upp þá kennslu sem þeir urðu af vegna fimm vikna verkfalls kennara fyrr í vetur. Fyrsta skrefið í þá veru verður að óska eftir áliti Listaskóla Mosfellsbæjar á tillögu sem fulltrúi Íbúahreyfingarinnar flutti í bæjarráði í morgun, fimmtudag 8. janúar en hún hljómar svo:
“Fulltrúi M-lista gerir að tillögu sinni að bæjarráð Mosfellsbæjar hlutist til um að nemendum í Listaskóla Mosfellsbæjar verði bætt upp það kennslufall sem þeir urðu fyrir á haustönn 2014 vegna verkfalls tónlistarskólakennara í Félagi tónlistarkennara. Tilgangurinn með tillögunni er að lágmarka þann skaða sem tónlistarnemendur hafa orðið fyrir á skólaárinu, auk þess að bæta kennurum upp það fimm vikna tekjutap sem þeir urðu fyrir á meðan á verkfallinu stóð, a.m.k. að hluta.
Sem fyrsta skref leggur fulltrúi Íbúahreyfingarinnar til að bæjarráð óski eftir tillögum frá skólastjóra og kennurum Listaskólans um útfærslu á leiðréttingunni og Mosfellsbær láti kostnaðargreina þær. Þau gögn komi síðan til umræðu og endanlegrar afgreiðslu í bæjarráði.
Ýmsar leiðir gætu verið færar í stöðunni:
1. sleppa prófum og kenna í staðinn = ein kennsluvika;
- enginn aukakostnaður f Mos
2. sleppa starfsdögum og kenna í staðinn = ein kennsluvika;
- enginn aukakostnaður f Mos
3. lengja skólaárið = ein kennsluvika;
4. eftir standa 2 vikur sem kennurum væri falið að skipuleggja með nemendum;
Nemendur fengju skv. þessari útfærslu tímana sem þeir annars yrðu af að fullu bætta og kennarar þriggja vikna kaupuppbót.
Niðurstaða bæjarráðs:
Málsmeðferðartillaga samþykkt með þremur atkvæðum að tillögu Íbúahreyfingarinnar sé vísað til umsagnar bæjarstjóra, framkvæmdarstjóra fræðslusviðs og skólastjóra Listaskólans.
by admin42 | 19 Dec, 2014 | Fréttir, Greinar
Í byrjun desember samþykkti meirihluti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar fjárhagsáætlun næsta árs. Ljóst er að fjárhagurinn er knappur og skuldir sveitarfélagins yfir 120% af heildartekjum og því ekki úr miklu að moða en samt. Þegar staðan er erfið skiptir öllu að forgangsraða eftir samfélagslegu vægi verkefna og láta gæluverkefnin bíða. Í kjölfar heimsókna bæjarráðs í fyrirtæki og stofnanir bæjarins lagði Íbúahreyfingin því fram breytingatillögur sem ganga út á verkefni sem þarf að fara í og þjóna hagsmunum heildarinnar. (more…)
by admin42 | 19 Dec, 2014 | Fréttir, Greinar
Íbúahreyfingin lagði fram breytingatillögu við fjárhagsáætlun 2015 – 2018 í bæjarráði 30. október sl. Við tókum í upphafi þann pól í hæðina að taka mið af því sem við yrðum áskynja í heimsóknum bæjarráðs í stofnanir og fyrirtæki Mosfellsbæjar nú um miðjan nóvember. Tillögur Íbúahreyfingarinnar eru því að hluta afrakstur samtals við starfsmenn sveitarfélagsins. Nokkrar af þessum tillögum hafa verið ræddar áður í nefndum og ráðum og sumar jafnvel verið samþykktar í bæjarstjórn. Þessum verkefnum hefur hins vegar ekki fylgt fjármagn og gerir Íbúahreyfingin að tillögu sinni að bæjarstjórn bæti núr úr því .
Við í Íbúahreyfingunni settum í forgang að byggja upp innviði sveitarfélagsins og gera Mosfellsbæ með því að betri bæ til að búa í. (more…)
by admin42 | 19 Nov, 2014 | Greinar
Lýðræðis- og jafnaðarstefna Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ fór fyrir lítið í dag þegar fulltrúar flokksins í bæjarstjórn greiddu atkvæði með tillögu sjálfstæðismanna og vinstri grænna um að hafna ósk Íbúahreyfingarinnar um að tilnefna fulltrúa í nefnd sem ætlað er að endurskoða deiliskipulag 4. áfanga Helgafellslands. Þess ber að geta að skipuð hefur verið nefnd sem í eru fulltrúar allra hinna framboðanna, þ.e. D-, S- og V-lista.
Þetta er í annað sinn á þessu kjörtímabili sem Íbúahreyfingin er sniðgengin þegar kemur að skipun í vinnuhóp á vegum Mosfellsbæjar. Í fyrra tilfellinu var það þegar skipaður var starfshópur á vegum menningarmálanefndar um bæjarhátíðina Í túninu heima. Íbúahreyfingin óskaði eftir því að fá að taka þátt í því starfi með þeim afleiðingum að meirihlutinn ákvað að blása starfhópurinn af.
Undirrituð hafði á orði í dag að í ljós væri að koma ákveðið munstur ójafnræðis þegar kæmi að skipan í starfshópa. Í tvígang hefði Íbúahreyfingin verið sniðgengin sem vekti upp spurningar um hvort ekki væri ástæða til að bæjarstjórn skoðaði nánar verkefnið Vinátta sem kynnt var fyrir bæjarráði á leikskólanum Hlíð í síðustu viku.
Ljóst er að mismunun stríðir gegn fagmennsku og góðum stjórnarháttum á vettvangi bæjarmála. Það er mikilvægt að framboðin hafi öll góða yfirsýn og hún er fengin með því að þau taki þátt í endurskoðun sem þessari frá upphafi. Oftar en ekki fá kjörnir fulltrúar enga aðkomu að málum fyrr en þau eru komin á lokastig sem þýðir að þeir fá engu breytt, sbr. breytingar á skipuriti Mosfellbæjar nýverið.
Íbúahreyfingin hefur mikið fram að færa í skipulagsmálum og finnst aumt að fulltrúar D-, S- og V-lista skuli sameinast um að útiloka hana frá þátttöku.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar á fundi bæjarstjórnar 19. nóvember
Fulltrúi M-lista gerir að tillögu sinni að Íbúahreyfingin fái að tilnefna fulltrúa í vinnuhóp um endurskoðun á deiliskipulagi IV. áfanga Helgafellshverfis. Í vinnuhóp skipulagsnefndar eru fulltrúar allra annarra framboða í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og því eðlileg krafa að jafnræðis sé gætt. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í skipulagsnefnd er reyndur arkitekt og hann því góður liðsauki fyrir þetta vandasama verkefni.
Tillagan felld með átta atkvæðum gegn einu.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Fulltrúi M-lista mótmælir harðlega því misrétti sem í því felst að halda fulltrúa Íbúahreyfingarinnar fyrir utan vinnuhóp um endurskoðun á deiliskipulagi 4. áfanga Helgafellslands.
Íbúahreyfingin er eina framboðið sem ekki á fulltrúa í nefndinni. Engin málefnalega rök eru fyrir þessu ójafnræði.
Sigrún Pálsdóttir