Innanbæjarvagn

8. sæti. Jóhannes B. Eðvarðsson, húsasmíðameistari

8. sæti. Jóhannes B. Eðvarðsson, húsasmíðameistari

Innanbæjarsamgöngur í Mosfellsbæ eru okkur í Íbúahreyfingunni mjög hugleikin og höfum við áhuga á að vinna að úrbótum á þeim.

Á opnum fundi skipulagsnefndar hinn 18. mars á þessu ári þar sem fjallað var um almenningssamgöngur spurði ég Einar Kristjánsson sviðstjóri skipulagssviðs Strætó bs. hvort að hann teldi að stærð og aðstæður væru orðnar þannig í Mosfellsbæ að koma þyrfti upp innanbæjarstrætó. Hann taldi svo vera. Í kjölfar þess lagði ég fram eftirfarandi tillögu í skipulagsnefnd sem fer með málefni strætó.

Fulltrúi íbúahreyfingarinnar leggur til að skipulagsnefnd óski eftir því að bæjarstjórn fái Strætó bs. til að gera leiðarkerfi fyrir innanbæjarvagn í Mosfellsbæ og kostnaðargreini.

Tillagan var samþykkt í nefndinni og jafnframt lagði formaður til að framkvæmdastjóra umhverfissviðs yrði falið, í samvinnu við Strætó bs., að koma með tillögur að framtíðarlausnum í almenningssamgöngum fyrir Mosfellsbæ sem gætu verið grunnur að samgöngustefnu sveitarfélagsins.

Vonandi tekur bæjarstjórn vel í þetta mál. Þó að það sé ljóst að kostnaður við innanbæjarvagn sé töluverður megum ekki gleyma því að á móti minnkar  annar kostnaður. Með þessu fyrirkomulagi þyrfti Mosfellsbær heldur ekki lengur að reka sérstakan skólavagn.

Innanbæjarvagn myndi gera almenningssamgöngur að betri kosti fyrir fleiri Mosfellinga þar sem betri  tenging fengist við vagnana sem fara til Reykjavíkur svo að ekki sé talað um jákvæð umhverfisáhrif. Minna slit verður á götum bæjarins vegna  þess að foreldrar þurfa ekki að skutla börnum sínum í tómstundir, umferð minnkar og þar með slysahætta, álag og kostnaður skutlforeldra og þar með aukast lífsgæði barnanna. Svo að fátt gott sé nefnt.

Jóhannes B. Eðvarðsson fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í skipulagsnefnd

Greinin birtist í Mosfellingi 8. maí 2014.

Stofnendur Eirar gangist við ábyrgð

Eitt af þeim málum sem farið hefur ofurhljótt í samfélaginu er nauðasamningur Eirar við íbúa í á annað hundruð öryggisíbúðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Þegar málið er skoðað setur mann hljóðan því með samningnum á nú gamla fólkið að taka á sig kostnaðinn af vítaverðri vanrækslu þeirra sem stofnuðu Eir og þeirra sem báru umsjónarábyrgð á rekstrinum og sigldu stofnuninni í strand. Í fjölmiðlum hefur verið sagt frá því að með nauðasamningnum sem gengið var frá í janúar sl. hafi óvissunni um framtíðarrekstur öryggisíbúða Eirar verið eytt en með honum var því afstýrt að gamla fólkið væri borið út úr íbúðum sínum og sett á guð og gaddinn í kjölfar uppboðs.

Staðreyndin er sú að með nauðasamningnum var Eir fyrst og fremst bjargað af gamla fólkinu, íbúðarréttarhöfunum. Með honum er í raun staðfest sú eignaupptaka sem átti sér stað þegar stjórn Eirar veðsetti öryggisíbúðirnar upp í topp á árunum 2007 til 2010. Íbúðarrétti sem naut verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar var með samningnum breytt í leigu. Nær allir sem keyptu sér íbúðarrétt í öryggisíbúðum á Eir, lögðu stærstan hluta, ef ekki allan ævisparnað sinn í þau kaup, stundum einnig með fjárhagslegri aðstoð ættingja. Kaupverð íbúðarréttarins sem skyldi endurgreiðast í einu lagi við brottflutning í lifanda lífi eða við andlát á nú að endurgreiða með allt að 30 ára skuldabréfi. Íbúðarréttargreiðslan verður því ekki að fullu endurgreidd fyrr en árið 2044! Skuldabréfin verða ekki tryggð með veði og ekki er gert ráð fyrir að þriðji aðili taki ábyrgð á greiðslu þeirra. Slíkir pappírar eru verðlausir í viðskiptum og verða því hvorki nýttir af íbúunum, ef þeir vildu flytja annað né af erfingjunum til að greiða upp lán sem margir hverjir hafa tekið til að kaupa íbúðarrétt fyrir foreldra sína.

Það hljóta allir að sjá að þetta er hvorki boðleg né sanngjörn lausn. Eitt er víst að það er ekki gamla fólkið sem keypti sér íbúðarrétt hjá Eir sem ber ábyrgð á greiðsluþrotinu. Ábyrgðin liggur hjá þeim opinberu og hálfopinberu aðilum sem standa að Eir. Það var á þeirra vakt sem starfsreglur og stjórnskipulag var samþykkt fyrir Eir. Stjórnskipulag sem var svo gallað að stjórnendur gátu í a.m.k. 4 ár brotið gegn íbúðarrétti skjólstæðinga sinna óátalið með því að stofna til eignaréttinda þriðja aðila með veðsetningu.

Það er kominn tími til að Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og aðrir sem bera lagalega og siðferðislega ábyrgð á vanrækslu umsjónaraðila Eirar viðurkenni þá ábyrgð í verki. Það geta þeir gert með því að gangast í ábyrgð fyrir 30 ára skuldabréfunum því aðeins þannig verða þau seljanleg og geta nýst íbúum eða erfingjum strax við útgáfu. Umsjónaraðilar hafa staðhæft að rekstur Eirar hafi nú verið tryggður. Því verður fjárhagsleg áhætta ekki notuð sem skálkaskjól til að hafna slíkri ábyrgð.

Það er ekkert í lögum sem kemur í veg fyrir að sveitarfélög taki ábyrgð á tjóni sem þau með vanrækslu hafa valdið.

Íbúahreyfingin vill að Mosfellsbær gangist við ábyrgð sinni og hafi forgöngu um að gamla fólkið eigi áhyggjulaust ævikvöld.

Sigrún Pálsdóttir

 

Mosfellingur, þú skuldar!

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2011 hefur nú verið lagður fram. Í ljósi þess að Mosfellsbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur haft umfjöllunar vegna bágrar fjárhagsstöðu er ekki óeðlilegt að bæjarbúar gefi málinu gaum. Við skoðun ársreikningsins kemur í ljós að Mosfellsbær stenst nú þau skilyrði sem eftirlitsnefndin leggur til grundvallar:

Eins og getur að líta munar þó ekki miklu. Og þó að um sé að ræða jávæða þróun segir það hvorki alla söguna né gefur tilefni til að lýsa því yfir að Mosfellsbær sé kominn fyrir vind.
Varðandi skuldahlutfallið þá aukast bæði tekjur og skuldir milli ára. Tekjur árið 2010 voru um 4,5 ma.kr. en árið 2011 voru þær um 5,6 ma.kr. og höfðu hækkað um 1,1 ma.kr. milli ára. Munar þar mestu um nýjan tekjustofn: tæplega 600 m.kr. framlag úr jöfnunarsjóði vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélagsinsins. Eðli málsins samkvæmt rennur framlag jöfnunarsjóðsins til reksturs málaflokksins en ekki til annarra verkefna, svo sem niðurgreiðslu skulda. Þannig mætti reikna út að ef ekki væri fyrir þennan nýja tekjustofn mældust skuldir Mosfellsbæjar enn yfir viðmiðunarmörkum.
Skuldir bæjarins jukust annars um tæplega 300 m.kr. frá fyrra ári og eru nú um 8,4 ma.kr. Í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir 240 m.kr. sjálfskuldaábyrgð Mosfellsbæjar vegna Helgafellsbygginga ehf. sem lögfræðistofan LEX vill meina að sé ólögleg. Íbúar Mosfellsbæjar voru 8.642 í upphafi ársins 2011. Það gerir því um 970 þúsund krónur á hvern Mosfelling eða tæpar 4 milljónir á hverja 4 manna fjölskyldu.


Eins og sjá má á ofangreindri mynd halda skuldir per í búa áfram að aukast eins og þær hafa gert frá árinu 2007. Á neðangreindri mynd má svo sjá að vaxtakostnaður fer vaxandi á nýjan leik eftir að hafa farið lækkandi tvö ár í röð.


Í raun mætti segja að sá árangur sem náðist við rekstur Mosfellsbæjar á árinu 2011 renni óskiptur til lánadrottna því vaxtakostnaður ársins, 580 m.kr., er nánanst á pari við rekstrarafganginn fyrir fjármagnsliði, 560 m.kr..

Greinin birtist í Mosfellingi 26. apríl 2012.

Í fangelsi fyrir Mosfellinga?

Í bæjarstjórn stendur nú yfir barátta um gagnsæi. Liðin sem takast á eru annarsvegar Íbúahreyfingin, sem með athöfnum og orðum berst fyrir rétti Mosfellinga til upplýsinga frá eigin bæjarfélagi og hins vegar Sjálfstæðisflokkur, VG og Samfylkingin, sem við skulum kalla þríflokkinn hér og berst fyrir því að leyna upplýsingum.
Í hvoru liðinu ert þú?
Það kann að vefjast fyrir fólki að þríflokkurinn sé í raun að berjast fyrir ógagnsæi því allir bæjarstjórnarmenn hans hafa forðast ótal tilraunir Íbúahreyfingarinnar til þess að fá fram skoðanir þeirra með atkvæðagreiðslum. Á síðasta bæjarstjórnarfundi töldu þeir sig ekki geta sinnt starfi sínu sem bæjarfulltrúar vegna þess að þeir eru ekki lögfræðingar.
Málið snýst um birtingu á afskriftum lögaðila (fyrirtækja) hjá Mosfellsbæ, þ.e. þeir sem sleppa við að greiða fyrir fengna þjónustu hjá bænum og ástæður fyrir því.
Afgreiðslan á málinu er mjög auðveld því þessar upplýsingar varða augljóslega almannahag Mosfellinga og birting upplýsinganna varða ekki við nein lög.
Vandinn er sá að þríflokkurinn neitar að skilgreina upplýsingarnar sem almannahagsmuni og með þeirri afstöðu velja þeir að standa gegn Mosfellingum.
Fjörflokkunum varð svo brugðið við að einhver skildi voga sér að birta opinberlega upplýsingar sem þeir eru augljóslega hagsmunagæslumenn fyrir að berist ekki til almennings, að þeir keyptu sér lögfræðiálit þar sem ekkert tillit er tekið til almannahagsmuna (hagsmuna sem þeir eru kosnir til þess að gæta). Í lögfræðiálitinu er lagt til að bærinn kæri fulltrúa Íbúahreyfingarinnar til saksóknara og Innanríkisráðuneytis.
Sama lögfræðistofa taldi að fyrri bæjarstjórn hefði án tvímæla brotið lög með því að setja bæinn í sjálfskuldarábyrgð fyrir kvart milljarði en lagði þó ekki til að það yrði kært.
Hafið þið séð einhverjar fréttir af afskriftum í fjölmiðlum? Jú, þær eru býsna algengar, er það ekki? Enda varða þær upplýsingar um almannahag jafnvel þó að fyrirtækið sem er að afskrifa sé hlutafélag. Enginn er dæmdur til fangelsisvistar fyrir birtinguna líkt og þríflokkurinn í Mosfellsbæ vill greinilega, í gegnum lögfræðiálitið, að verði gert við þá sem birta sambærilegar upplýsingar um Mosfellsbæ.
Það er mikilvægt að átta sig á því að bæjarfulltrúar Íbúahreyfingarinnar verða venjulegir íbúar að loknu kjörtímabili, aðrir íbúar taka við keflinu. Þeirra persónulegu hagsmunir liggja ekki í að ná endurkjöri með öllum þeim hagsmunaárekstrum sem slíkt hefur í för með sér, heldur að reyna að breyta bæjarfélaginu þannig að það þjóni sem best venjulegum íbúum. Íbúalýðræði og gagnsæi eru því grundvallaratriði.
Gott væri að fá stuðning eða gagnrýni Mosfellinga í þessari baráttu, sendið póst á ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is eða mætið í viðtalstíma 16. nóvember kl. 17:00 – 18:00 í Kjarna hjá fulltrúum Íbúahreyfingarinnar.

Af starfsemi Íbúahreyfingarinnar

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hefur ekki setið með hendur í skauti fyrsta ár kjörtímabilsins, hún hefur beitt sér í nær öllum málum.

Fljótlega eftir kosningar þurfum við að beita okkur vegna misbeitingar valds. Sjálfstæðisflokkur og VG höfðu sent út pólitískan áróður í nafni Mosfellsbæjar. Í yfirlýsingu sem enn má sjá á www.mos.is er Mosfellsbær látinn túlka niðurstöðu kosninga með orðunum „Niðurstöður kosninganna eru skýr skilaboð um ánægju íbúa”. Hér er graf sem sýnir niðurstöður síðustu tveggja sveitarstjórnarkosninga í Mosfellsbæ, skilaboðin eru skýr. Mosfellingar eru alls ekki ánægðir:

M-listi fékk nær 9% atkvæða, auð og ógild atkvæði tvöfölduðust, og um þriðjungi fleiri kjósendur mættu ekki á kjörstað. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði nærri 5% fylgi og VG um 2%. Fólk þarf svo að athuga hvort það vilji áróður af þessum toga frá sínum flokki. Eitt er þó ljóst, Íbúahreyfingin situr ekki hjá þegar misbeiting valds er annars vegar og stjórnsýslan er notuð til að ljúga að íbúum.

Önnur mál sem Íbúahreyfingin hefur beitt sér fyrir:
Hljóðritun og birting á fundum bæjarstjórnar: Fyrst neitaði forseti bæjarstjórnar að leyfa hljóðritanir. Síðan var miklum kostnaði borið við en eftir að Íbúahreyfingin sýndi fram á lausn sem kostaði 3% af þeirri upphæð var byrjað að taka fundina upp. Hljóðritanirnar eru hins vegar hvergi heyranlegar á vef Mosfellsbæjar.
Hvers vegna vilja hinir flokkarnir ekki að íbúar geti hlustað á opna bæjarstjórnarfundi? Í mörgum sveitarfélögum er bæjarstjórnarfundum útvarpað, jafnvel sjónvarpað.

Gagnsæi fundargerða: Það skortir mjög mikið á að fundargerðir bæjarfélagsins gagnist bæjarbúum. Í mörgum tilfellum er beinlínis komið í veg fyrir að ljóst sé hvaða málefni voru til umræðu og engin merki eru um þær umræður sem fram fara á fundunum. Dæmi um vísvitandi villandi nöfn á dagskrárliðum eru óteljandi og kerfisbundin. Eina ástæðan virðist vera að villa um fyrir bæjarbúum.

Niðurfelldar kröfur lögaðila: Íbúahreyfingin hefur beðið í 6 mánuði eftir rökstuðningi fyrir því að listinn yfir þessa aðila sé ekki birtur. Nú bíðum við ekki lengur listann má sjá hér að neðan:

Auk þess var afskrifað hjá 29 einstaklingum samtals 935.402 kr. Þar af 485.189 vegna hitaveitu að tillögu OR, 214.992 vegna leikskólagjalda, 177.790 vegna mötuneytis/frístundar grunnskóla, 28.125 vegna hundaeftirlitsgjalds. Svo eitthvað sé nefnd.

Upplýsingaveita til íbúa: Við reynum vitaskuld að draga fram í dagsljósið upplýsingar sem bæjarbúar eiga fullan rétt á að vita en haldið er frá þeim með ýmsu móti. Það gengur seint. Oft tekur mánuði að fá upplýsingar sem bæjarfulltrúi á rétt á. Það tók til að mynda 4 mánuði að fá upplýsingar um laun og hlunnindi bæjarstjóra og það varð hreinlega allt vitlaust þegar við báðum um upplýsingar um laun og hlunnindi æðstu embættismanna.

Sjálfskuldarábyrgð fyrir einkafyrirtæki: Á síðasta kjörtímabili skrifaði bæjarráð undir ólöglega sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar fyrir einkafyrirtæki upp á kvartmilljarð. Við erum ekki í neinum vafa um að bæjarráðsmenn vissu að þetta væri ólöglegt og fórum því fram á að þeir segðu allir af sér. Innanríkisráðuneytið hefur tekið málið til nánari athugunar á grundvelli 1. mlg. 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Gagnsæi: Íbúahreyfingin hefur beitt sér fyrir gagnsæi allstaðar þar sem hægt er, í nefndum bæjarins, bæjarstjórn, bæjarráði, þingi Sambands Íslenskra Sveitarfélaga (en þar var Íbúahreyfingin ein með með mál fyrir þingið). Gömlu flokkarnir skipta á milli sín stjórnarsætum hjá sambandinu og þeir vilja engar breytingar í átt að auknu gagnsæi eða íbúalýðræði, fólk getur haft sína skoðun á því, en okkar skoðun er sú að þeir sem vilja leyna einhverju hafi einhverju að leyna og að ógagnsæi sé gróðrarstía spillingar.

Opinn hugbúnaður: Þá hefur Íbúahreyfingin ítrekað bent á að með innleiðingu opins hugbúnaðs megi spara tugi milljóna á ári og minnkað niðurskurð sem því nemur, en meirihlutinn hefur greinilega meiri áhuga á niðurskurði á þjónustu.

Atvinna: Íbúahreyfingin hefur komið með nokkrar atvinnuskapandi tillögur s.s. sleppitjörn, vatnaskíðabraut o.f.l. sem geta aukið tekjur sveitarfélagsins.

Íbúahreyfingin hefur ekki viljað veita Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga samningsumboð án fyrirvara á grundvelli laga sem brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar (t.d. Lög nr. 94/1986). Þau skilyrði sem Íbúahreyfingin vill setja fyrir samningsumboð eru:
• Að ekki verði samið við stéttarfélög um áframhaldandi beinar greiðslur til þeirra sem ekki komi fram á launaseðli launafólks. Hér er átt við allar greiðslur hverju nafni sem þær nefnast.
• Að mótframlag í lífeyrissjóði verði eftirleiðis tilgreint á launaseðlum launafólks.
• Að Samband íslenskra sveitarfélaga virði 74. grein stjórnarskrár og semji við þau félög sem óska eftir samningum en þröngvi launafólki ekki til þess að tilheyra ákveðnu félagi.
• Að ekki sé samið við stéttarfélög þar sem lýðræði og gagnsæi gagnvart launafólki er ekki virt, enda geta stjórnir slíkra félaga vart talist fulltrúar umbjóðenda sinna.
• Auk þess leggur bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að samninganefnd komi því inn í samninga að greiðslur í atvinnutryggingasjóð verði meðhöndlaðar á sama hátt og annar tekjuskattur á launþega á launaseðli launafólks í stað þess að fela skattheimtuna og gera launafólki ókleift að fylgjast með sköttum sínum, réttindum og öðrum greiðslum.

Jón Jósef Bjarnason

Takið þátt!

Fyrir síðustu kosningar tók ég þátt í stofnun Íbúahreyfingarinnar þar sem mér fannst vera þörf á breytingum, en ég gat ekki hugsað mér að styðja neinn af fjórflokkunum. Ég íhugaði það lengi vel að bjóða mig fram, af því að ég vildi hafa áhrif á mitt umhverfi og hvernig hlutunum er hagað hér í bænum, þó að ég hafi hvorki reynslu af né miklar mætur á pólitísku þrasi. Á Íslandi virðast stjórnmál nefnilega snúast um andstæðinga, fólki er stillt upp í minnihluta og meirihluta. Ef ég hefði boðið mig fram væri ég orðin andstæðingur fólks sem ég er sammála um margt en ósammála í öðru.

Eftir kosningasigur Íbúahreyfingarinnar, þar sem við fengum næstmesta fylgi allra framboða í Mosfellsbæ og einn mann inn í bæjarstjórn, var auglýst eftir fólki til að starfa í nefndum bæjarins og ákvað ég sækjast eftir að starfa í nefnd. Ég sótti um að vera fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í byggingar- og skipulagsnefnd. Þar hef ég nú starfað í eitt ár og nokkra mánuði.

Starfið í nefndinni hefur hefur verið athyglisvert og ekki fæ ég séð að afstaða fólk þar fari eftir því hvort það tilheyrir minnihluta eða meirihluta. Yfirleitt eru nefndarmenn nokkuð sammála um málefnin og úrlausn þeirra. Þetta ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem sveitarstjórnarmál hafa yfirleitt lítið að gera með stefnuskrár landsmálaflokka.
En hvers vegna er ég að skrifa þetta? Jú vegna þess, að ég vil hvetja Mosfellinga til að taka þátt og hafa áhrif í bæjarfélaginu. Með þátttöku er hægt að breyta stjórnmálunum. Líka gömlu flokkunum! Þátttaka getur til dæmis falist í mæta á hina ýmsu fundi sem haldnir eru bæði á vegum bæjarins og flokkanna sjálfra eða með ýmsum öðrum leiðum.
Í búsáhaldabyltingunni var krafan um að nýtt fólk tæki við af atvinnupólitíkusum hávær. Það verður aldrei ef engin gefur sig fram.

Íbúahreyfingin er enn í mótun og þar er pláss fyrir þig og þínar skoðanir ef þú vilt vinna að gagnsærri og lýðræðislegri stjórnsýslu.

Jóhannes Bjarni Eðvarðsson

Pin It on Pinterest